140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held þvert á móti að Evrópusambandið sé í vaxandi mæli að komast undir stjórn manna sem hafa þokkalega jafnaðarstefnu í hjarta sér.

Aðeins aftur að forsendum fyrir afstöðubreytingu Samstöðu. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að nýjar upplýsingar hafi komið fram eftir að Samstaða var stofnuð opinberlega í febrúar um að aðildarviðræðum yrði ekki lokið fyrir kosningar. Ég sagði það strax undir lok sumars. Ég hef reyndar aldrei sagt að þeim yrði lokið fyrir kosningar og hef heldur aldrei sagt að við værum á hraðferð í Evrópusambandið. Einhverjir aðrir hafa sagt það við hv. þingmann. Ég veit að hún gat lesið það í Morgunblaðinu á sínum tíma. (JBjarn: Hjá forsætisráðherra.)

Það orkar samt dálítið skrýtið að hv. þingmaður leggi lykkju á leið sína til að segja að hún sé ekkert á móti því að við förum í Evrópusambandið ef fólkið vill það því að það var skýrt skrifað í stofnsáttmála Samstöðu, sem birtur var opinberlega í febrúar, að ljúka ætti aðildarviðræðum. Það var stefnan þá. Engar nýjar upplýsingar hafa komið fram síðan, en hv. þingmaður og hennar flokkur hafa samt skipt um skoðun. Þá geta menn kannski velt því fyrir sér hver hin málefnalega undirstaða Samstöðu er ef menn bara breyta stefnu í meginmálum eftir því hvernig vindurinn kann að blása í ból þeirra dag hvern.

Svo vil ég líka segja við hv. þingmann að ég kannast ekki við það í þeirri skýrslu sem ég að vísu skrifaði ekki sjálfur heldur sérfræðingar mínir en las og leiðrétti, fann að og bætti inn í, að þar sé talað um yfirdráttarlán frá ESB. Ég held að hv. þingmaður ætti að spara sér slíkar yfirlýsingar.

Raunar tel ég að ýmislegt af því sem Samfylkingin vill gera væri jafnvel enn betra í framkvæmd með einhvers konar samþættingu við sumar hugmyndir hv. (Forseti hringir.) þingmanns í efnahagsmálum. (Gripið fram í.)