140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ágæta ræðu og fagna þeim tillögum hennar og áherslu á að sem fyrst verði kosið um það meðal þjóðarinnar hvort halda skuli áfram þessari vegferð eða ekki.

Staðreyndin er sú að við erum akkúrat á þeim krossgötum núna að ef við höldum áfram er bara fram undan aðlögun að Evrópusambandinu, það er svo einfalt. Fyrir þá sem vilja ganga í Evrópusambandið er þetta gott og blessað, en þeir sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið vilja heldur ekki fara í aðlögunarferlið sem blasir við. Þá er eins gott að þjóðin taki ákvörðun um það.

Þeir sem halda því fram að hægt sé að halda áfram með Evrópusambandsaðildarumsóknina og aðlögunarferlið, sem fram undan er í þeim efnum, og ætla síðan að segja nei eru í rauninni að blekkja þjóðina. Það er nefnilega ekkert sem heitir, annaðhvort förum við inn eða við ætlum ekki að fara inn og sá tímapunktur er nú að koma. Annað er blekkingaleikur, að vera á móti en halda samt ferlinu áfram.

Eitt er líka mikilvægt í þessu og ég veit að hv. þingmaður hefur gert sér grein fyrir því en það er að í þessu samningaferli er það Evrópusambandið sem lokar samningsköflunum, ekki Íslendingar. Það eru þeir sem loka þeim og segja: Núna erum við komnir að þeirri niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir okkur og þá lokum við, annars ekki. Og þó svo að heildarsamningurinn yrði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu þá standa eftir þeir (Forseti hringir.) samningar sem gerðir hafa verið í aðlögunarferlinu og við eigum ekki svo auðvelt með að losna við. (Forseti hringir.) Þess vegna er svo mikilvægt, herra forseti, að við tökum ákvörðun núna (Forseti hringir.) áður en lengra er haldið.