140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef heyrt frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að við séum í aðlögunarferli en ekki umsóknarferli. Ég hef oft beðið hv. þingmann um að sýna mér fram á að svo sé en hef ekki fengið staðfestingu á því þannig að ég hef ekki verið þeirrar skoðunar að við eigum að hætta þessu umsóknarferli. Það var ekki fyrr en það kom skjalfest, m.a. í þeirri skýrslu sem við ræðum núna, að umsóknarferlið mundi taka mun lengri tíma en gert var ráð fyrir sem ég áttaði mig á því að við þyrftum að fara að taka ákvörðun um hvort halda ætti þessu áfram eða ekki. Mér finnst brýnt að það sé lagt í hendur þjóðarinnar að ákveða það. Ég tel að það sé hennar að ákveða hvort ljúka eigi þessum samningaviðræðum og leggja síðan samninginn í dóm þjóðarinnar eða ekki.

Ég velti fyrir mér, herra forseti, hvort það sé ekki besta lausnin á öllum þeim ágreiningsefnum sem eru í kringum þetta umsóknarferli að klára það bara og takast á við vandamál sem eru mun brýnni, eins og afnám gjaldeyrishafta sem munu jafnvel verða til þess að okkur verði vísað úr EES vegna þess að til þess að afnema þau þurfum við að brjóta fjórfrelsið.