140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða var flutt af mikilli innlifun og það er kannski ágætt fyrir þá sem fylgjast með umræðum á þingi að heyra þessa ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams því að hún lýsir því mjög vel við hvað við glímum hér. Meiri hluti þjóðarinnar er mótfallinn Evrópusambandsaðild. Þeim fer fjölgandi sem ekki vilja standa í aðildarferli, nú síðast lýsti meiri hluti Samtaka iðnaðarins því yfir að hann væri mótfallinn því. Það sem kallað er eftir úti í samfélaginu er að farið verði að fjalla um það hvernig við ætlum að bregðast við þegar (Gripið fram í.) sú stund rennur upp að menn átta sig á því að við munum ekki ganga í Evrópusambandið.

Það er hægt að taka mörg atriði í ræðu hv. þingmanns sem ekki eiga við rök að styðjast eins og til dæmis að Evrópusambandsaðild sé lykillinn að því að greiða fyrir fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Í síðustu viku voru erlendir aðilar hér á landi og ætluðu að setja af stað gríðarlegt fjárfestingarverkefni upp á 127 milljarða. Þeir sem starfa í þessum geira fjalla um að vandinn sé einkum pólitísk óvissa og þá fyrst og fremst á stjórnarheimilinu, en ekki að við séum ekki í Evrópusambandinu.

Við erum búin að heyra svona mýtur mjög ítrekað hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar. Til að mynda var sagt að þegar við sæktum um aðild að Evrópusambandinu mundu fjárfestingar aukast, lánshæfismatið mundi hækka o.s.frv.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann að í ljósi þess að allt bendir til þess að þjóðin mun ekki ganga í Evrópusambandið: Hvað ætlar Samfylkingin að taka til bragðs þegar ljóst verður að við munum ekki ganga í Evrópusambandið (Forseti hringir.) og þjóðin mun hafna Evrópusambandsaðild, hvort sem það verður á þessu ári eða næsta? (Forseti hringir.) Hver verður sýn Samfylkingar (Forseti hringir.) þá? Er þar einhver önnur framtíðarsýn en þetta þriggja stafa orð, ESB?