140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því í upphafi máls míns að þakka fyrir þessa skýrslu. Ég held að það sé mjög jákvætt að utanríkisráðherra hverju sinni færi Alþingi skýrslu um helstu störf utanríkisþjónustunnar og alþjóðamál þjóðarinnar og ég vil þakka fyrir það.

Í upphafi langar mig að segja að heppilegra hefði verið að áður en þessi umræða um skýrsluna færi fram hefðum við verið búin að taka hér sérstaka umræðu um Evrópusambandsmálin, eins og kom fram í umræðu um störf þingsins í upphafi þingfundar. Enda liggur fyrir beiðni um sérstaka umræðu um stöðu Evrópusambandsviðræðnanna, hún hefur legið hér fyrir svo mánuðum skiptir. En fyrst svo varð ekki er ljóst að umræða um skýrslu utanríkisráðherra mun alltaf litast af Evrópusambandsmálinu.

Hæstv. forseti sagði fyrr í dag að hún teldi nægilega rúman ræðutíma um skýrslu utanríkisráðherra og þar með væri búið að svara kallinu um þessa sérstöku umræðu um Evrópusambandsmálin. En það er nú einu sinni svo að utanríkismál eru meira en Evrópusambandsmál þrátt fyrir að þingflokkur Samfylkingarinnar og hæstv. ráðherrar telji svo ekki vera, þetta sé einn og sami hluturinn.

Í upphafi vil ég segja að það er alveg ljóst að mestur hluti af tíma utanríkisþjónustunnar og fjármunir fara greinilega í Evrópusambandsumsóknina. Við erum að tapa dýrmætum tíma vegna þess að það liggur eiginlega ljóst fyrir að andstaða þjóðarinnar er gríðarlega mikil við Evrópusambandsaðild. Allar skoðanakannanir sýna mikla og vaxandi andstöðu við Evrópusambandsaðild. Fyrirtæki í atvinnulífinu eru hvert á fætur öðru að snúa bakinu við Evrópusambandsumsókn Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar, nú síðast Samtök iðnaðarins sem voru eiginlega það sem Evrópusambandssinnar og Samfylkingin gátu alltaf skýlt sér á bak við, að iðnaðurinn vildi þó ganga í Evrópusambandið. Skemmst er þess að minnast að hæstv. fjármálaráðherra sagði við setningu iðnaðarþings að iðnaðurinn og Samfylkingin væru þó bandamenn í því að ganga í Evrópusambandið. En svo kom könnun, birtist viku seinna, þar sem kom skýrt fram að iðnaðurinn hafði engan áhuga á því að ganga í Evrópusambandið og var þar með búinn að snúa baki við Samfylkingunni.

Þetta er auðvitað að gerast alls staðar í þjóðfélaginu, það verða allir varir við þetta. Andstaðan er að aukast og þjóðin er farin að kalla eftir því að við förum að taka víðsýnni umræðu um utanríkismál. Kannanir hafa líka sýnt fram á að meiri hluti þjóðarinnar vill draga Evrópusambandsumsóknina til baka. Þrátt fyrir að þingmenn Samfylkingarinnar komi hér og segi að meiri hluti þjóðarinnar vilji klára ferlið, þá er það svo að af þeim könnunum sem gerðar hafa verið síðasta árið hefur meiri hluti þeirra sýnt fram á að þjóðin, Íslendingar vilja hætta viðræðum við Evrópusambandið, telja að önnur mál brýnni eigi að vera á dagskrá þingsins heldur en þetta gæluverkefni Samfylkingarinnar.

Tillögur liggja hér fyrir þinginu, tillögur um að hætta Evrópusambandsferlinu og ein slík tillaga er í vinnslu þingsins. Það er líka tillaga um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort hætt verði aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ég tel að það væri mjög jákvætt skref og mjög mikilvægt ef þingheimur gæti sameinast um að leyfa þjóðinni, sem ekki fékk að koma að málinu áður en sótt var um aðild vegna andstöðu ríkisstjórnarflokkanna, af meiri hluta þeirra, að taka ákvörðun um það hvort hún vilji halda þessu ferli áfram. Það er mjög dapurlegt að fylgjast með því hvernig hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa komið hér í dag, þó ekki margir, en þeir sem hafa tjáð sig hafa sagt að þeir teldu ekki eðlilegt að þjóðin fengi að taka ákvörðun um það hvort ferlinu yrði haldið áfram. Það er alveg ljóst að við erum að fara inn í aðlögunarferli, við erum í aðlögunarferli sem kostar gríðarlega fjármuni. Þetta tekur mikla vinnu hjá stjórnsýslunni á niðurskurðartímum og það er ótrúlegt að stjórnmálaflokkar sem tala í öðru orðinu fyrir lýðræði og fyrir beinu lýðræði skuli ekki vera tilbúnir til þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál. Það lýsir því í rauninni bara best að þeir ágætu stjórnmálaflokkar og þingmenn sem tala með þessum hætti eru eingöngu fylgjandi beinu lýðræði, virðist vera, þegar það hentar málstað þeirra.

Eins og ég sagði er gríðarleg andstaða við Evrópusambandsaðild. Það sem kallað hefur verið eftir hér í umræðunum í dag er hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Hvað ætla stjórnmálaflokkar, til að mynda Samfylkingin að gera þegar nei-ið kemur? Hvort sem það verður í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu ári með ákvörðun um að draga umsóknina til baka eða síðar, liggur alveg ljóst fyrir að þjóðin vill ekki ganga í Evrópusambandið.

Hv. þm. Magnús Orri Schram sagði áðan að það skipti engu þó að meiri hluti þjóðarinnar segði nei við ESB-aðild, það yrði alltaf eftirspurn eftir þessum sjónarmiðum í samfélaginu. Það er alveg rétt. Það er lítill hluti þjóðarinnar sem vill ganga í Evrópusambandið. En það er hins vegar gríðarlega alvarlegt og mikill ábyrgðarhluti þegar svo er komið að einn stjórnmálaflokkur sem hefur þetta á stefnuskrá sinni geti haldið utanríkisstefnu heillar þjóðar í gíslingu vegna þess að hann er að hugsa um eigin hagsmuni, hann er að hugsa um það að halda lífi og halda þessum ósamstæða stjórnmálaflokki saman.

Þá er líka mikil ábyrgð hjá samstarfsflokknum sem heldur lífi í þessu máli, sem er Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Það er auðvitað Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem gerir Samfylkingunni kleift að halda lífi í málinu með stuðningi sínum og eftirgjöf gagnvart Samfylkingunni ítrekað. Aftur og aftur erum við að sjá að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er að halda lífi í Evrópusambandsumsókninni, Evrópusambandsumsókn Samfylkingarinnar. Ekkert virðist hagga því. Það virðist engu skipta þó að hótanir komi vegna makríldeilunnar, hótanir um löndunarbann, viðskiptaþvinganir og annað því um líkt, það virðist engu skipta þó að Evrópusambandið ætli í mál við Íslendinga út af Icesave, það virðist engu skipta þó að milljarðar streymi inn í landið til aðlögunar og aðlögun sé að hefjast um allt stjórnkerfið. Ja, frú forseti, það hefði nú einhvern tíma heyrst í Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri grænna, áður en hann umbyltist og gerðist ráðherra.

Það er auðvitað svo að ábyrgð Vinstri grænna er gríðarlega mikil. Það er mjög alvarlegt hvernig menn hafa ítrekað verið að gefa eftir gagnvart kröfum Evrópusambandsins, eins og til að mynda þeirri kröfu að Jóni Bjarnasyni yrði hent út úr ríkisstjórn og þeirri staðreynd að samningamanni Íslands í makríldeilunni var kastað út vegna þess að hann var ekki alveg nógu leiðitamur í því að gefa eftir hagsmuni Íslands. Það er auðvitað gríðarlega alvarlegt að við skulum ítrekað horfa upp á svona lagað þegar kemur að utanríkismálum þjóðarinnar.

Eins og ég sagði áðan er mjög erfitt að ræða þessi mál því að það liggur alveg ljóst fyrir að Samfylkingin og þingflokkur Samfylkingarinnar ræður algjörlega för í málinu. Það ber lítið á þingmönnum eða ráðherrum Vinstri grænna. Það hefur enginn ráðherra Vinstri grænna tjáð sig opinberlega um Evrópumál svo mánuðum skiptir. En þingmenn Samfylkingarinnar virðast trúa því, og það hefur komið fram í umræðum og kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram, að Evrópusambandsaðild, þrátt fyrir að allt bendi til hins gagnstæða, sé töfralausn á öllum vanda.

Hv. þm. Magnús Orri Schram sagði áðan að flokkar sem ekki vildu ganga í Evrópusambandið hefðu enga framtíðarsýn og væru ekki nútímalegir. Hv. þingmaður sagði einnig að flokkar sem ekki vildu ganga í Evrópusambandið vildu hafa láglaunastefnu á Íslandi. Hann sagði einnig að flokkar sem ekki vildu ganga í Evrópusambandið væru mótfallnir fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Hann sagði einnig að flokkar og stjórnmálamenn sem ekki vildu ganga í Evrópusambandið hefðu ekki áhuga á því að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Þeir hefðu ekki heldur áhuga á því að leggja niður verðtrygginguna eða lækka vexti hér á landi. Engu þessara markmiða væri mögulegt að ná öðruvísi en að ganga í Evrópusambandið.

Það er náttúrlega mjög erfitt að rökræða mál og reyna að komast að einhverri niðurstöðu þegar menn trúa svo statt og stöðugt á að þetta sé einhver töfralausn. Það liggur auðvitað ljóst fyrir, svo við tökum bara eitt atriði af þessum lista, að til að mynda varðandi fjárfestingu í atvinnulífinu tengist það Evrópusambandsaðild ekki nokkurn skapaðan hlut. Við sáum það hér í síðustu viku að erlent fyrirtæki — skrifað var undir viljayfirlýsingu þess efnis upp á 127 milljarða kr. fjárfestingu. Var þetta fyrirtæki innan Evrópusambandsins? Nei. Þetta var fjárfesting frá Kína. Hvað svo sem mönnum kann að finnast um það eru gríðarleg sóknarfæri fólgin í því fyrir okkur Íslendinga og ekki hvað síst á þeim tímum sem eru nú í heiminum að auka víðsýni í utanríkismálum.

Önnur nýleg frétt um stórt verkefni sem var að koma til landsins, en er kannski lítið í samanburði við þessa kínversku fjárfestingu, er nokkurra milljarða samningur við fyrirtæki á Akranesi um að setja upp vinnslu- og frystilínu í Færeyjum fyrir frystingu á makríl. Er það vegna Evrópusambandsins? Þvert á móti. Færeyingar standa í sömu deilu og við Íslendingar vegna makrílveiðanna og þessi fjárfesting er að koma inn í landið vegna þess að Færeyingar, líkt og Íslendingar, hafa haldið kröfu sinni skýrt á lofti um réttláta hlutdeild í makrílstofninum.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er mjög mikið atriði að við förum að huga að því að svara þeirri spurningu hvert við ætlum að stefna á svo fjölmörgum sviðum þegar þessu Evrópusambandsbrölti verður hætt og mjög mikilvægt er að ekki tapist meiri tími hvað þetta snertir. Við Íslendingar eigum alla möguleika í þessu og það er mjög mikið atriði að utanríkisstefna þjóðarinnar á þeim tímum sem við lifum núna, þegar við sjáum Evrópu vera að síga niður á við, lífsgæðin þar eru að versna, atvinnuleysið er að aukast, meðalaldurinn er að hækka, fjárfestingar eru að dragast saman, atvinnuuppbygging er að dragast saman, þá er mjög mikið atriði að við Íslendingar notumst við það sem við höfum ávallt gert, þ.e. þá sjálfstæðu utanríkisstefnu sem við höfum getað byggt á, sem sóknarfæri okkar byggjast á og sem styrkur okkar hefur byggst á og þau lífskjör sem í gegnum tíðina hefur tekist að byggja hér upp. Við þurfum að fara að horfa til hagkerfa sem eru í vexti og hagkerfa sem eru að rísa. Þar nefni ég til að mynda Kína, þar nefni ég Kanada, þar nefni ég Rússland, Brasilíu og tækifærin á norðurslóðum.

Við þurfum að auka víðsýni, og reyndar, svo því sé til haga haldið, virðist jafnvel örla á því hjá hæstv. utanríkisráðherra að hann sé búinn að gera sér grein fyrir því, vegna þess að í skýrslu utanríkisráðherra er meðal annars fjallað um það að til standi að taka upp á nýjan leik fríverslunarviðræður við Kína. Menn hafa einbeitt sér meira að norðurslóðum en verið hefur. Hins vegar þarf að ganga lengra. Við þurfum að fara í gjaldeyrisumræðuna. Það er alveg rétt sem margir þingmenn hafa bent á, við þurfum að taka þá umræðu. En það er ekki hægt að taka hana þegar ríkisstjórnin, sem hefur öll völd í landinu og hefur til þess liðhlaupa úr litlum flokkum á þinginu, er ekki tilbúin til að taka þá umræðu á víðsýnum grunni. Það er bara eitt sem kemst að og það kom svo glögglega fram í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hér áðan.

En á meðan tapast dýrmætur tími. Hvert árið sem líður á meðan við erum á vegferð sem allir sjá að mun ekki leiða til niðurstöðu, þjóðin er mótfallin henni, erum við að tapa tíma. Og sá tími kostar peninga. Þessi tími kostar peninga fyrir fyrirtækin og fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Það verður að fara að koma hér að ríkisstjórn í landinu sem mun hugsa af víðsýni og mun fara að byggja upp utanríkisstefnu sem byggir ekki á Evrópusambandsþröngsýninni einni saman.