140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[19:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Umræðan í dag hefur að töluvert miklu leyti snúist um þann þátt skýrslu utanríkisráðherra sem lýtur að Evrópumálum. Þetta er eðlilegt því að aðildin að Evrópusambandinu er auðvitað stærsta viðfangsefnið á sviði utanríkispólitíkur sem við stöndum frammi fyrir núna og því hefur það gerst sem líklegt var, að aðrir þættir í utanríkistefnunni hafa að nokkru leyti legið óbættir hjá garði og kannski ekki fengið þá athygli í þessari umræðu sem eðlilegt væri.

Ég verð því miður að beina sjónum mínum fyrst og fremst að þeim þáttum sem lúta að Evrópumálunum eins og flestir aðrir ræðumenn í dag, vegna þess að mér þykir töluvert skorta á að í þinginu hafi verið tekin sú umræða sem ég tel að þurfi að eiga sér stað um framhaldið á aðildarviðræðum okkar við Evrópusambandið, sem eru á margan hátt í uppnámi að mínu mati.

Áður en ég kem að því vildi ég bara rétt nefna að þegar sótt var um aðild að Evrópusambandinu sumarið 2009 voru höfð uppi ýmis orð, og ýmis gylliboð getum við kallað það, um hvaða áhrif þau skref mundu hafa. Það var gefið í skyn og beinlínis sagt í þessum sal, ekki síst af hæstv. ráðherrum Samfylkingarinnar og öðrum talsmönnum þess flokks, að efnahagslíf tæki þegar að glæðast þegar aðildarumsókn hefði verið send inn. Það var ekki einu sinni nauðsynlegt að bíða eftir aðild, það var nóg að sækja bara um, það var nauðsynlegt. Það varð að klára þessa umsókn í júlí 2009 vegna þess að það var forsenda þess að uppbygging gæti hafist að nýju í íslensku efnahagslífi. Talað var um jákvæðar breytingar varðandi peningamál, gjaldeyrismál og efnahagsmál í breiðum skilningi. Allt þetta átti að fara til betri vegar við það eitt að sækja um aðild. Auðvitað hefur ekkert af því staðist.

Annað sem rétt er að minna á eru væntingar um hraðann í viðræðunum sem margir úr þessum ranni reyndu að byggja upp inni á þingi og meðal þjóðarinnar. Ég bendi á, hv. þingmenn, að í dag er komið fram í apríl 2012 en umsókn var samþykkt hér á þingi um mitt sumar 2009. Það eru bráðum þrjú ár síðan sótt var um aðild og enn erum við í þeirri stöðu að viðræður eru ekki hafnar, eiginlegar samningaviðræður eru ekki hafnar um þá kafla samningsins við Evrópusambandið sem öllum hefur verið ljóst frá upphafi að mundu verða erfiðastir og vekja mestar deilur.

Núna næstum því þremur árum eftir að sótt var um aðild er ekki byrjað að ræða sjávarútvegsmálin, það er ekki byrjað að ræða landbúnaðarmálin eða byggðamálin eða aðra þá þætti sem erfiðastir verða í viðræðunum, verði þeim haldið áfram. Við getum að minnsta kosti sagt tvennt, annars vegar að undirbúningsferlið hefur reynst tímafrekara en margir vildu láta í veðri vaka þegar sótt var um sumarið 2009. Ég minni nú á, fyrst hæstv. utanríkisráðherra gengur í salinn, að hann var í ummælum sínum sennilega bæði varfærnari og raunsærri en ýmsir kollegar hans úr ríkisstjórn við þessar aðstæður. Ég minnist þess að ýmsir úr forustusveit Samfylkingarinnar höfðu uppi stór orð um hversu hratt þetta gæti gengið. Hins vegar, án þess að ég vilji dvelja lengi við þann þátt, held ég að það sé ákveðið rannsóknarefni hvaða gylliboð voru uppi vorið og sumarið 2009 í sambandi við Evrópusambandsaðildina og áhrif hennar og væntingar sem reynt var að byggja upp um hraða viðræðna.

Nú erum við komin fram á vorið 2012 og samningaviðræður um sjávarútvegsmál eru ekki byrjaðar, samningar um landbúnaðarmál eru ekki byrjaðir né um byggðamál og þeir þættir sem viðræðum er lokið um eru kaflar aðildarsamnings, ef svo má segja, sem allan tímann, allt frá upphafi lá ljóst fyrir að enginn sérstakur ágreiningur væri um enda fyrst og fremst um að ræða hluti í löggjöf Evrópusambandsins sem Ísland hefur fyrir löngu tekið upp sem hluta af samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Að þessu leyti hefur því ferlið gengið miklu hægar en reynt var að láta í veðri vaka í upphafi og af einhverjum ástæðum, ég ætla ekkert að reyna að gera það tortryggilegt, er staðan sú að menn hafa ýtt því á undan sér og frestað því að fara í umræður um þá þætti sem eru hvað erfiðastir.

Nú er okkur sagt að sennilega verði byrjað á öllum þessum þáttum einhvern tíma síðar á þessu ári og það má vel vera. Ég veit ekki hvort hæstv. utanríkisráðherra getur brugðist við því hér á eftir en ég vildi gjarnan að hann gerði aðeins nánari grein fyrir því, miðað við það sem stendur í skýrslunni sjálfri, ef hann gæti. Ég velti fyrir mér, ef hæstv. utanríkisráðherra getur svarað því í umræðunni á eftir, hvort og hvenær hann sjái fyrir sér að samningsafstaða Íslands liggi fyrir og umræður geti hafist við Evrópusambandið um landbúnaðarmál, um sjávarútvegsmál og um byggðamál svo dæmi sé tekið. Væri ég þakklátur ef hæstv. ráðherra gæti upplýst um það.

Ég ætla ekki að dvelja lengi við þætti sem aðrir hv. þingmenn hafa rakið ítarlega og hafa auðvitað áhrif á samskipti okkar við Evrópusambandið meðan á aðildarviðræðunum stendur. Það er alveg rétt sem fram hefur komið að makríldeilan er tæknilega ekki hluti af aðildarviðræðum okkar við Evrópusambandið, ekki nema Evrópusambandið taki það upp hjá sér að gera að skilyrði áframhalds viðræðna að Ísland gefi eftir hagsmuni sína á sviði makrílveiða.

Það sem gerðist í sambandi við Icesave-málið fyrir EFTA-dómstólnum er heldur ekki eiginlegur hluti af Evrópusambandsaðildarviðræðunum, en þegar tveir aðilar standa í samningaviðræðum hljóta menn að veita því athygli þegar annar aðilinn beitir aðgerðum sem að mínu mati hljóta að teljast fjandsamlegar og að mati sumra annarra teljast jafnvel fruntalegar, svo vitnað sé til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Þetta hefur auðvitað áhrif, þetta eykur ekki líkurnar á því að samningum sé haldið áfram í góðum vilja. Af þessum sökum, hæstv. forseti, hef ég lagt áherslu á að efnt verði til sérstakrar umræðu um stöðuna í Evrópusambandsaðildarviðræðunum og jafnframt út frá þeim breyttu aðstæðum sem að mörgu leyti eru fyrir hendi hér á landi — kannski sérstaklega pólitískt — og þegar horft er til þróunar efnahagsmála í Evrópu frá því að aðildarumsóknin var samþykkt. Umhverfið er með öðrum orðum allt annað í dag en það var þegar aðildarumsóknin var samþykkt og telja má að jafnvel þótt hæstv. ríkisstjórn hafi komið aðildarumsókninni í gegnum þingið, sennilega í raunverulegri andstöðu við vilja meiri hluta þingmanna þegar horft er afstöðu þeirra til Evrópusambandsaðildar, er alls ekki víst að sú afstaða sé óbreytt í dag þegar horft er til alls þess sem breyst hefur.

Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að hafa þessa ræðu lengri. Ég vil þakka fyrir hina ágætu skýrslu utanríkisráðherra og væri, eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, þakklátur ef hann gæti upplýst okkur nánar um þá þætti sem ég spurði sérstaklega um. Ég er þá fyrst og fremst að velta fyrir mér: Hvenær liggur samningsafstaða fyrir í þeim umdeildu köflum sem geymdir hafa verið í viðræðunum og hvenær telur hæstv. ráðherra að viðræður um þá geti hafist? Bið ég hann að svara ef hann mögulega getur af meiri nákvæmni en kemur fram í skýrslunni sem hér hefur verið lögð fyrir þingið.