140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[20:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það fer nú að síga á seinni hlutann á þessari umræðu en ég vildi nota þann stutta tíma sem ég hef í minni síðari ræðu til að víkja aðeins að öðrum utanríkismálum en málefnum Evrópusambandsins sem hafa verið mest til umræðu í dag.

Mig langar til að byrja á samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Það er rætt um þau í skýrslunni og ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að horfa vestur um haf, einblína ekki á (Utanrrh.: Kína?) Evrópu og Evrópusambandið, og á ég þá við vini okkar í Norður-Ameríku, Bandaríkjunum og Kanada. Ein af ástæðum þess að ég hef ekki verið sérstaklega ginnkeypt fyrir Evrópusambandsaðild er, þvert á það sem Evrópusinnar halda fram um okkur sem erum andvíg aðild að Evrópusambandinu, sú að ég er mikill alþjóðasinni og vil leggja áherslu á öll þau tækifæri sem við höfum til samstarfs á öllum mögulegum sviðum við þessa miklu vinaþjóð okkar í vestri, Bandaríkin. Ég veit að varðandi öryggis- og varnarmál hefur loksins verið komið á samstarfi milli embættismanna. Það voru sameiginlegar viðræður í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári, það þurfti að ýta á þá til þess og ég spyr: Af hverju telur hæstv. ráðherra svo vera? Ég hef í gegnum mín sambönd, bæði við sendiráðið hér og við bandarísk stjórnvöld, fundið fyrir miklum áhuga á samskiptum við Ísland. Þetta tókst loksins og ég sé líka í skýrslunni að enn hefur ekki tekist að gera fjárfestingarsamning við Bandaríkin. Það er gert mikið úr því að bæði Bandaríkin og Kanada hafa sýnt þessu frekar lítinn áhuga og ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé örugglega ýtt á eftir því hérna megin að þessir samningar verði gerðir. Ég man að fyrir allt of mörgum árum, ég vil ekki einu sinni nefna hversu mörgum árum, þegar ég var að vinna fyrir Útflutningsráð í New York, var helsta vandamálið sem sneri að íslenskum fyrirtækjum í Bandaríkjunum vegabréfaáritunarmál, dvalarleyfi og önnur praktísk atriði fyrir íslensk fyrirtæki sem voru með starfsemi í Bandaríkjunum. Ég sé að þetta er enn þá óleyst.

Síðan vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra um fyrirhugaðan NATO-leiðtogafund í Chicago. Það er fjallað aðeins um hann og ég vil athuga við ráðherra hvort hann geti frætt okkur aðeins um það hvernig þeim undirbúningi er háttað, hvort það verði ekki örugglega þannig að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, sem ég treysti að sæki þennan fund sameiginlega, (Gripið fram í.) komi á fund utanríkismálanefndar áður en haldið verður á leiðtogafundinn til að kynna stefnu Íslands varðandi þau mál sem þar verða til umræðu.

Ég vil spyrja hvort hæstv. utanríkisráðherra geti farið aðeins nánar yfir það sem rætt er um sérstaklega í skýrslunni, á að ræða á leiðtogafundinum og varðar samstarfsríki bandalagsins, hvort til standi að gera einhverjar breytingar. Ég sé að nefndir eru til sögunnar frændur okkar Svíar og Finnar sem eins og kunnugt er taka mikinn þátt í verkefnum bandalagsins, meira að mörgu leyti en aðrar þjóðir sem eru þó aðilar að bandalaginu.

Ég vil rétt í lokin þakka fyrir þessa umræðu og ítreka að þrátt fyrir að mikið hafi verið rætt um Evrópusambandið og stöðuna í aðildarviðræðunum er þeirri umræðu ekki lokið og ég vona svo sannarlega að okkur takist í sameiningu að finna tíma sem allra fyrst til að taka sérstaka umræðu um það sem ég tel fulla þörf á.