140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[20:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það er margt í hennar máli sem ég get tekið heils hugar undir varðandi hin ýmsu mál sem tengjast utanríkisstefnu Íslands.

Hv. þingmaður kom inn á það í lok ræðu sinnar að hann teldi að þjóðin ætti að komast fyrr að þessu máli en í það minnsta utanríkisráðherra og forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað um að sé mögulegt. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Nú liggur fyrir tillaga, að ég hygg í utanríkismálanefnd, þar sem hv. þingmaður á sæti, sem snýr að því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort þjóðin vilji draga Evrópusambandsumsóknina til baka. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hver afstaða hans sé til þeirrar tillögu. Mundi hv. þingmaður styðja slíka tillögu kæmi hún fram hér á þinginu, til að mynda á þessu vorþingi?

Þessari spurningu hafa fleiri verið að velta upp í dag, til að mynda hv. þm. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sem er ekki andvígur eða fylgjandi Evrópusambandsaðild en mundi styðja það að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort þjóðin vildi að umsóknin yrði dregin til baka. Mér leikur forvitni á því að vita hver afstaða hv. þingmanns er til þeirrar tillögu og hvort hann teldi eðlilegt að sú tillaga yrði lögð fram á þinginu í vor til atkvæðagreiðslu.