140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[20:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og ég vil taka undir það með hv. þingmanni að það liggur nokkuð ljóst fyrir hvað í boði er þegar talað er um Evrópusambandsaðild. Þessi margumræddi pakki er pakkaður inn í sellófan fremur en pappír. Það er mjög auðvelt að sjá í gegnum sellófan og það er mjög auðvelt að sjá inn í þennan pakka ef menn hafa áhuga á því að kynna sér hvað er í honum.

Ég vil líka fagna þessari niðurstöðu hv. þingmanns. Þetta hefur raunar komið fram hjá fleiri þingmönnum í dag eins og reyndar þingmönnum Hreyfingarinnar. Hv. þm. Þór Saari sagði við umræður í dag að Hreyfingin mundi styðja það að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Evrópusambandsumsóknin yrði dregin til baka eða ekki. Í fljótheitum reiknast manni til, þegar horft er yfir þessa umræðu, að hún hafi þó skilað þeirri niðurstöðu að farið sé að hrikta verulega í stoðum Evrópusambandsumsóknarinnar. Það má kannski draga þá ályktun að meirihlutastuðningur sé við það á þinginu að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort viðræðum um Evrópusambandsumsóknina verði áfram haldið. Þá reynir á hvort ríkisstjórnarmeirihlutinn er tilbúinn til að hleypa þessu máli inn í þingið nú á vorþinginu.

Þegar mælt var fyrir tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu skoraði ég á ríkisstjórnina og ríkisstjórnarliða að hleypa nú þessu máli hingað í atkvæðagreiðslu þannig að við gætum fengið að sjá hvort meirihlutavilji væri fyrir því að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál jafnvel í haust. Ég fagna því að hv. þingmaður styður slíkt og þá sýnist mér líka í fljótheitum að kominn sé nýr meiri hluti í utanríkismálanefnd fyrir þessu máli, fyrir því að taka málið út úr utanríkismálanefnd, og jafnvel meiri hluti í þinginu. Það kallar þá á það, frú forseti, að við tökum þetta mál á (Forseti hringir.) dagskrá á þessu vorþingi svo að það komist til atkvæðagreiðslu.