140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:02]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Svar mitt í þessum efnum er skýrt og skorinort og getur verið þó nokkuð stutt. Þar tala ég í takt við það sem flokksráð VG hefur samþykkt og það sem kom efnislega fram á síðasta landsfundi VG um túlkun ályktunar í utanríkismálum á því sem varðar ESB-ferlið þar sem framsögumaður ályktunar landsfundar VG tók fram að litið væri svo á að í þessari ályktun fælist að VG samþykkti ekki IPA-styrki. Það liggur ljóst fyrir í mínum huga hvers vegna það er ef maður les bara frumtextann um það hvað þessir IPA-styrkir eru, þá eru þetta aðlögunarstyrkir. Þetta er til að laga landið að Evrópusambandinu fyrir fram og það er það sem við höfum nákvæmlega sagt að við ætlum ekki að gera.

Maður er settur í rosalega erfiða stöðu í þessum efnum. Eins og hv. þingmaður veit þá er ég mikill náttúruverndarsinni og álpaðist út í stjórnmál fyrst og fremst út af þeim málum. Fjársveltar stofnanir, sem þyrstir í peninga til að vinna gríðarlega góð og mikilvæg verk, fagna þessu að sjálfsögðu og ég skil það mjög vel. En siðferðislega finnst mér rétt að segja: Heyrðu, allt í lagi, þegar við erum komin í Evrópusambandið, þegar við erum komin þangað inn, þegar þjóðin er búin að segjast ætla að vera hluti af Evrópusambandinu þá skulum við taka á móti hvaða styrkjum sem er og gefa á móti en ekki í þessu viðkvæma ferli sem hefur klárlega áhrif á það hvernig fólki líður í þessum efnum, bíða þar til við erum orðin hluti af Evrópusambandinu.

Mitt svar er skýrt: Ég er ekki samþykk þessum (Forseti hringir.) IPA-styrkjum og mér finnst ekki vera rétt af hálfu Íslands að þiggja þá. Ég segi: Látum frekar grísk ungmenni (Forseti hringir.) eða atvinnulausa Grikki, Spánverja, Ítali eða Frakka þiggja þá, það eru Evrópusambandslönd.