140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem var, eins og hún boðaði í upphafi, alveg skýrt. En þá hlýt ég að spyrja þingmanninn hvort hún geti útskýrt fyrir mér þennan sprett sem var á málinu á fundinum í morgun. Við höfum haft þetta mál til umfjöllunar, ekki rætt það í að minnsta kosti mánuð held ég, alla vega það, fengið gesti og það hefur legið. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra í umræðunni í dag hvort fyrirskipun hefði komið frá honum um að ljúka málinu og hann sagði svo ekki vera. En í morgun lá svo mikið á að afgreiða málið út úr nefndinni að ekki mátti bíða í nokkrar mínútur eftir fundarmönnum sem voru væntanlegir.

Getur verið að formaður nefndarinnar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, hafi metið það þannig, eins og ég sagði í ræðu fyrr í dag, að þetta væri eina tækifærið til að ná málinu út úr nefndinni? Getur verið að hann hafi gert sér grein fyrir því að þarna væri staðan orðin sú að ekki væri meiri hluti í nefndinni fyrir því að taka málið út? Ég heyri svör hv. þingmanns og við vorum þrjú, tveir fulltrúar Framsóknarflokksins og ég, sem greiddum atkvæði gegn þessu og ég geri ráð fyrir að félagi minn úr Sjálfstæðisflokknum, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefði líka verið á því máli. Getur verið að það sé ástæðan fyrir að verið var að þröngva málinu út úr nefndinni til að nýta það tækifæri að menn voru fjarverandi jafnvel þó fyrir lægi að menn höfðu ekki boðað forföll? Getur verið að það gæti skýrt sprettinn?