140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka öllum þeim sem tekið hafa þátt í henni og þakka fyrir málefnalegar umræður sem hér hafa átt sér stað. Ég hef undir þessari umræðu gert mér far um að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint og held að ég hafi svarað flestum þeirra en þó ekki öllum og mun ég koma að þeim á eftir.

Ég vil segja það í tilefni af ræðu hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur áðan að ég er alveg sammála henni um að utanríkisþjónustan, undir minni stjórn en líka áður, hefur unnið mjög gott starf, ekki síst á mannréttindasviðinu. Þótt menn geri sér ekki alveg grein fyrir því hefur utanríkisstefna Íslands um langt skeið verið lituð ofan frá og allt um kring af ákveðnum viðhorfum í mannréttindum sem einkenna Ísland og hinar Norðurlandaþjóðirnar. Það veitir okkur ákveðna sérstöðu og ég held að það megi segja að hvar sem við getum drepið niður fæti reynum við að ýta fram þeim sjónarmiðum sem til heilla horfa gagnvart mannréttindum.

Af því tilefni langar mig til að svara því sem hv. þm. Þór Saari spurði mig að í dag og ég komst ekki til að svara þá. Hann reifaði nokkur mannréttindamál og varpaði fram spurningu til mín um hvort ég væri hlynntur því að sett væru lög sem skylduðu ríkisstjórn til að taka upp öll mannréttindabrot gagnvart fulltrúum þjóða sem heimsækja Ísland. Sömuleiðis vildi hann fá álit mitt á því hvort í slíkum lögum ætti að vera ákvæði um að ríkisstjórn mundi síðan veita þinginu jafnan skýrslu um slíkt. Svo það sé afdráttarlaust sagt af minni hálfu tel ég að það sé ekki rétt aðferð. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að halda þeim hætti sem hingað til að tala við aðrar þjóðir um mannréttindabrot. Það gerum við jafnan, en ég tel ekki að það eigi endilega að fara með þær umræður í þingsal, bara svo það liggi algerlega ljóst fyrir.

Ég er líka þeirrar skoðunar að við þurfum að líta í eigin barm. Hv. þingmenn sem talað hafa um mannréttindamál í kvöld hafa til dæmis bent á að á sama tíma og við Íslendingar ýtum fram mannréttindum hvar sem við getum á erlendri grundu er þó sums staðar pottur brotinn hjá okkur. Ég segi það sem ráðherra að mér hnykkti við þegar ég fór yfir skýrslu sem okkur barst frá fulltrúum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, sem var hér á ferð og gefur árlega skýrslu, mér brá við þegar ég sá að okkur höfðu borist 80 eða 90 ábendingar um mannréttindamál. Ég held að við þurfum að skoða þessi mál hjá okkur. Við þurfum að skoða betur með hvaða hætti við getum uppfyllt alþjóðlega sáttmála, til dæmis varðandi vernd og réttindi barna og vernd og réttindi fanga.

Þá vil ég nefna það sérstaklega að ég er þeirrar skoðunar, af því að ég og mitt fólk höfum komið töluvert að því að liðsinna föngum sem fjarri eru Íslands grænu grundum, að við þurfum með einhverjum hætti að geta sem stjórnvöld aðstoðað þá betur. Rými okkar er ekki meira en svo að ef í miklar nauðir stefnir getum við sent menn frá Íslandi til að liðsinna föngum. Við gerðum það nýlega, þá sendum við háttsettan sendiherra í aðra heimsálfu til að tala máli fanga sem þar var illa staddur og við töldum að réttur væri brotinn á. Við þurfum með einhverjum hætti að marka því bás í fjárlögum að stunda liðsinni gagnvart föngum. Við höfum það ekki í dag

Stundum eru það fangar sem eru kannski lengi bak við rimla og sem enginn sinnir, eiga enga fjölskyldu eða hafa tapað tengslum við hana. Ég held að það væri með ýmsum hætti hægt að létta þeim lífið, til dæmis með því að koma til þeirra sendingum, fatnaði og öðru slíku sem leyfilegt er. Ég tók það upp í ráðuneyti mínu og komst að því að við höfum ekki heimild til að gera slíkt. Þetta er eitt af því sem við þurfum skoða og gera, það kostar ekki mikla peninga en það þarf eigi að síður lagastoð undir svona starfsemi. Við eigum líka að hugsa um okkar minnstu bræður og systur.

Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir varpaði til mín ýmsum spurningum í dag, raunar dembdi hún yfir mig spurningaflóði. Ég svaraði því flestu eins og ég gat en hún hefur ítrekað við mig að ég þurfi að skýra betur það sem segir í inngangi mínum þar sem ég lofa starfsmenn mína fyrir einstaka samningatækni og úthald. Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvort einhverjir samningar séu í gangi á bak við tjöldin gagnvart ESB. Það er ekki svo. Ef hv. þingmaður skoðar þá setningu sér hún að hún er almenn og tengist ekki endilega öldunum sem hv. þingmaður sagði að senn mundu rísa fyrir stafni í sjávarútvegsmálum, og hafði það eftir mér. Ég er í því sambandi til dæmis að hugsa um starfsmenn sem ég hef yfir að ráða og hef gert að sendiherrum í krafti verðleika sinna sem unnið hafa alveg ótrúlega gott starf með snerpu á skömmum tíma við að leysa alþjóðleg vandamál, til dæmis á sviði flugsamgangna. Ég gæti rifjað upp nokkur nýleg dæmi um slíkt. Hitt sem hv. þingmaður spurði mig um varðar meiningu orðsins réttlæti í setningunni sem ég vitna í, með leyfi forseta:

„Þeir sem hafa réttlætið sín megin sigra alltaf að lokum, en þurfa þá að vísu að vera væddir úthaldi, góðum skammti af þolgæði og helst þokkalegu taugakerfi.“

Mér hefur stundum fundist upp á það skorta í þessum sal að menn hafi taugar til að horfast í augu við erfiðleika eins og til dæmis deilur sem upp spretta. Menn verða að hafa þolgæði, menn verða að hafa taugar til að gera ekki mistök, (Gripið fram í.) til að skjóta ekki yfir. Þarna er ég að hugsa um það sem fjallað er um ofar í tilvitnuðum texta, þ.e. sjávarútvegsmálin. Ég held að Íslendingar hafi réttlætið sín megin í þeim efnum þegar við eigum í samningum, reyndar á tvennum vígstöðvum í bili. Réttlætið sigrar að lokum en það gerist ekki fyrirhafnarlaust. Menn sækja aldrei sigur, jafnstöðu eða réttlæti nema með fyrirhöfn. Það er sú staðreynd sem ég undirstrika þarna. Þetta er líka lærdómur úr daglega lífinu.

Hv. þingmaður spurði mig líka um samskiptin við Bandaríkin. Þá skal ég vera hreinskilinn við hv. þingmann. Það hefur ekki skort á vilja okkar að ýta á eftir ýmsum hlutum en ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst áhugi Bandaríkjanna á okkur vera ákaflega lítill. Hann hefur verið það frá árinu 2006. Öll önnur stórveldi heimsins hafa sýnt okkur miklu meiri áhuga; Rússland, Kína og Evrópusambandið, sem ég kalla stórveldi þó að það sé ríkjabandalag, það er sjálfsagt að segja það. Hv. þingmaður spurði um samráð við Bandaríkin. Það var aldeilis ýtt á eftir því af okkur og að lokum tókst það, en það var eftir að búið var að setja fundi á dagskrá sem því miður féllu niður. Það er bara þannig.

Hv. þingmaður spyr um fjárfestingarsamning við Bandaríkin. Íslendingar hafa ýtt á eftir slíkum samningi, ekki bara í tíð þessarar ríkisstjórnar heldur líka í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þingmaður starfaði fyrir á sínum tíma. Í 10 ár hafa Íslendingar ýtt á eftir því (Gripið fram í: Meira.) en það er lítill áhugi fyrir slíku handan hafs.

Bara til að draga þetta saman í lítið dæmi um samskipti okkar við Bandaríkin þá hefur Ísland verri samning við Bandaríkin um vegabréfaáritanir en önnur Norðurlönd. Menn geta dregið þá ályktun sem menn vilja af því. Ég vísa líka til þess, svo það sé líka sagt, að frá því að ég varð ráðherra í þessari lotu, sem er að verða bráðum sex ár, það er ekkert minna, minnist ég þess ekki að hingað hafi komið nokkur háttsettur stjórnmálamaður eða ráðherra frá Bandaríkjunum, ég man ekki eftir því. (Gripið fram í.) Ég tók sjálfur sem iðnaðarráðherra á móti tveimur aðstoðarráðherrum en þar með er sagan öll. Á sama tíma hefur komið hingað straumur ráðherra frá öðrum stórveldum heimsins, þar á meðal Kína og Rússlandi og er von á fleirum.

Hv. þingmaður spurði mig síðan af þeim einlæga áhuga sem hún hefur á samskiptum okkar og Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins um leiðtogafundinn í Chicago í maí. Ég komst því miður ekki á undirbúningsfundinn. Hann bar upp á sama dag og dóttir mín fermdist þannig að ég átti ekki heimangengt. En ég hef fylgst með því sem þar verður rætt. Á þeim fundi munu menn velta fyrir sér þróun grunnstefnunnar, til dæmis með hvaða hætti menn útfæra varnarstefnuna. Þar verður sérstaklega rætt um hinar svokölluðu snjallvarnir. Dæmi um þær er nýleg ákvörðun bandalagsins um ómönnuð könnunarför og sömuleiðis er loftrýmisgæsla dæmi um snjallvarnir. Ég hef svo ákveðnir skoðanir á skotflaugavörnum. Ég hef stutt þær en ég hef líka stutt það mjög fast að við gerum það sem við getum til að uppfylla það sem bæði Anders Fogh Rasmussen sagði á fundunum í Lissabon og áður í Strassborg/Kehl og því sem Medvedev, sem er að verða forsætisráðherra en var þá forseti Rússlands, sagði á sama fundi. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að Rússland og Atlantshafsbandalagið nái saman í þeim efnum. Ég tel að það skipti máli varðandi heill álfu okkar til lengri tíma litið.