140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa lokaræðu og get tekið undir margt af því sem kom fram í máli hans í lokaræðunni, sérstaklega varðandi mannréttindamál og þá punkta sem hann nefndi hvað þau snertir. Umræður í dag hafa hins vegar snúist að verulegu leyti um það mál sem tekur hvað mest pláss í utanríkisþjónustunni um þessar mundir og er Evrópusambandsumsóknin.

Í þessum umræðum hefur komið fram sú skoðun mjög margra að skynsamlegt væri að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði slitið eða haldið áfram. Þetta kom meðal annars fram hjá hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og hjá hv. þm. Þór Saari og sagði sá þingmaður að hann vænti þess að Hreyfingin mundi styðja tillögu um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort aðildarviðræðum yrði hætt. Þá kann að vera, í ljósi þeirra ræðna sem hafa verið haldnar, að jafnvel sé kominn meiri hluti í þinginu fyrir því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort viðræðum skuli áfram haldið eða ekki. Það væri gríðarlega mikilvægt fyrir svo veigamikið mál að vita hvort raunverulegur þjóðarvilji búi að baki því að halda ferlinu áfram.

Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé andsnúinn því að hleypa því þingmáli sem liggur fyrir þinginu um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu inn í þingið, þannig að það komist í atkvæðagreiðslu og hægt sé að fá fram hvort meirihlutastuðningur sé við það í þinginu að leyfa þjóðinni að koma að málinu og veita þar með hæstv. utanríkisráðherra annaðhvort umboð sitt til að halda viðræðum áfram eða draga umsóknina til baka.