140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki lengt þessa umræðu þar sem ég hef fullnýtt ræðutíma minn, hæstv. utanríkisráðherra. Það var eitt í ræðu ráðherrans frá því í dag sem ég gleymdi hreinlega að spyrja um (Utanrrh.: Ég er búinn að gleyma því.) en ég man það og skrifaði það niður. Það var í sambandi við breytingartillögu sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins um makrílinn. Hafi ég tekið rétt eftir svaraði hæstv. ráðherra því til aðspurður um tíma og ferilinn á þessum breytingartillögum að núna færu þrír til fimm mánuðir í samráð og síðan yrðu einhverjir mánuðir þar til afstaða yrði tekin.

Ég hafði skilið það þannig að Evrópuþingið mundi greiða atkvæði um þessar breytingartillögur og tillögu framkvæmdastjórnarinnar í júní næstkomandi. Er það rangt hjá mér? Tók ég rétt eftir hjá hæstv. utanríkisráðherra? Ég las það einhvers staðar og það var minn skilningur að úr þessu fengist skorið þá.

Ég ætla að koma aðeins inn í umræðu sem varð í fyrra andsvari um afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Af því að vitnað var í ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins ætla ég að lesa klausuna úr landsfundarsamþykkt míns flokks fyrir hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) frá landsfundinum í nóvember sem er sú stefna sem við erum bundin af í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Hún er svona:

„Landsfundur ályktar að gera skuli hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Við þurfum ekkert að karpa um það orðalag, það liggur fyrir og við mundum væntanlega styðja þá tillögu sem þarna um ræðir, sérstaklega ef við gætum breytt orðalaginu þannig að það félli algerlega að þessari samþykkt.