140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að það er fundur í utanríkismálanefnd á morgun þar sem þessi mál verða rædd og ég hef sérstaklega óskað einmitt eftir því að samningamaðurinn fyrrverandi, Tómas Heiðar, verði kallaður á fundinn vegna þess að ég vil ræða þessi mál við hann.

Mig langar að gera athugasemd við ummæli hæstv. utanríkisráðherra sem þakkaði fyrir málefnalegar umræður fyrr í kvöld og grípur svo til þess ómálefnalega málflutnings að kalla aðra stjórnmálaflokka tækifærissinnaða. Þá segi ég, eins og þeir segja í Ameríkunni af því að við vorum að tala um Bandaríkin áðan: It takes one to know one. Afsakaðu, frú forseti.

(Forseti (RR): Gjöra svo vel að …) (Gripið fram í.)

Þingmálið er íslenska. (Gripið fram í.) Það er nefnilega málið, þetta kallast á gallharðri íslensku að kasta steinum úr glerhúsi. Þetta finnst mér ómaklegt. Stefna Sjálfstæðisflokksins í þessum málum hefur alltaf verið skýr. Við höfum aldrei verið eins og aðrir flokkar að slá úr og í hvað varðar aðild að Evrópusambandinu. Um hana eru vissulega skiptar skoðanir innan flokksins en stefnan hefur alltaf verið sú að hagsmunum okkar væri betur borgið utan Evrópusambandsins og það get ég sagt hæstv. utanríkisráðherra frá dýpstu hjartarótum að sú stefna er algjörlega einlæg hjá þeirri sem hér stendur.

Varðandi það sem við ræddum líka um við Bandaríkin er það áhyggjuefni að mér fannst vera ákveðin kergja í svörum hæstv. utanríkisráðherra í því að Bandaríkjamenn hefðu ekki gert þetta og Bandaríkjamenn hefðu ekki gert hitt. Ég legg því til við hæstv. utanríkisráðherra, eins og ég gerði í ræðu minni, að hann horfi meira í vestur og leggi sig nú fram um að bæta þessi samskipti. Ég veit og hef fundið það á mínum samskiptum að þar er áhugi á Íslandi (Forseti hringir.) og samskiptum og viðskiptum við Ísland.