140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

réttarstaða fatlaðra til bifreiðakaupa.

[10:37]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er sjálfsagt og eðlilegt að menn beri fram mál óundirbúið þó að því miður verði fátt um svör ef málið er ekki sérstaklega undirbúið. Það er eðlilegt að vekja athygli og sjálfsagt að kalla eftir úrbótum á þeim málum sem hafa ekki fengið skýr svör.

Það er búið að vera óviðunandi ástand í fjölmörg ár. Það þekkir maður sjálfur af öðrum störfum að fatlað fólk hefur þurft að hafa gríðarlega mikið fyrir að sækja rétt sinn. Einn af veikleikunum í kerfinu okkar er að við höfum ekki sett nógu skýrar reglur og viðmið um umhverfið, bæði hjá sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum. Fólk þyrfti að geta fengið nokkuð skýr og bein svör. Það er bagalegt að fjölskyldur þurfi endalaust að sækja rétt sinn og fá eingöngu afgreiðslu miðað við það hversu hart þau leggja fram sín mál.

Ég kannast við þennan úrskurð og almennu umræðuna um það hvernig við bjóðum upp á aðstöðu (Forseti hringir.) varðandi kaup á bílum. Það kannast ég við en ég skal láta skoða þetta sérstaklega í ráðuneytinu og svara svo hv. þingmanni betur.