140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

vinna við landbúnaðarkafla í ESB-viðræðunum.

[10:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Þar sem ráðherrann hafði umframtíma saknaði ég þess að hann svaraði því hvort það væri mat ráðherrans að þessum tíma starfsmanna væri vel varið. Það kom líka fram í umræðunni og var talsvert rætt í gær í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um þær hugmyndir Samfylkingarinnar og hæstv. utanríkisráðherra að við ætluðum að færa gjaldeyrishöftin og gjaldmiðilinn í skjól evrunnar. Þá vil ég spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í lokaspurningu minni hvort hann telji að við séum ekki þar með að fara sömu leið og Írar, að hugmyndafræðin sé sú að snjóhengjan upp á 1.200 milljarða sem hangir hér yfir okkur verði sett á okkur skattborgarana eins og var gert á Írlandi og við sett í sömu ömurlegu stöðu og Írar eru í, að þurfa að borga upp skuldir einkabanka og hafa þar fyrir utan ekki þau sömu tækifæri og við Íslendingar (Forseti hringir.) höfum til að koma okkur út úr kreppunni með því að nýta auðlindir okkar og tækifæri í atvinnulífinu.