140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

vinna við landbúnaðarkafla í ESB-viðræðunum.

[10:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Ég biðst forláts að hafa ekki svarað mikilvægustu spurningunni sem að sjálfsögðu var sú hvort ég teldi að þessum tíma væri vel varið. Menn geta lagt mjög huglægt mat á það og það er kannski hægt að grípa bara til þess ráðs að vitna í Kínverja sem var spurður um mat Kínverja á frönsku byltingunni og 200 árum síðar var svarið að það væri of snemmt að segja til um það hvaða áhrif hún mundi hafa til lengri tíma litið. Ætli við verðum ekki bara að bíða og sjá og fá kannski í fyllingu tímans endanleg svör við því hvort þessum tíma hafi verið val varið. Það fer allt eftir því hvort við teljum að niðurstaðan sem leiddi af þessu hafi orðið farsæl fyrir land og þjóð.

Varðandi afnám gjaldeyrishaftanna held ég að það hefði engin áhrif í sjálfu sér hvernig um semdist, einfaldlega vegna þess að hér er um greiðslujafnaðarviðfangsefni að ræða og það yrði það alltaf og í öllu tilliti. Þessi staða er í hagkerfinu og það þarf einhvern veginn (Forseti hringir.) að leysa hana út. Sá veruleiki breytist ekki óháð því hvort við eigum eitthvert samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða Evrópusambandið um regluverkið í kringum gjaldeyrismál.