140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

verðbólga og efnahagshorfur.

[10:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við höfum heyrt þennan söng áður, að verðbólgan sé nú búin að finna jafnvægi eða sé á niðurleið. Við heyrðum það til dæmis undir lok ársins 2010 þegar verðbólgan fór sannarlega niður en hún hefur hækkað síðan, meðal annars vegna opinberra hækkana.

Það má segja að almenningur í landinu sé að fá seinni löðrunginn núna. Fyrri löðrungurinn kom þegar hér var mikið samdráttarskeið og verðbólgan rauk upp í tveggja stafa tölu. Seinni löðrungurinn kemur þegar ekki mælist hagvöxtur á Íslandi, störfum hefur ekki fjölgað en verðbólgan rýkur upp. Kaupmáttur jókst sannarlega á síðasta ári vegna launahækkana en nú hlýtur maður að spyrja sig: Munu ekki allar launahækkanir sem samið var um á síðasta ári hverfa í verðbólgubáli? Er ekki staðreyndin sú að allar forsendur sem menn gáfu sér fyrir launahækkunum síðasta ár hafa brostið (Forseti hringir.) algerlega vegna getuleysis ríkisstjórnarinnar við að hafa taum á verðbólgunni og skapa ný störf og alvöruhagvaxtarskeið?