140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

verðbólga og efnahagshorfur.

[10:51]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég verð að hrósa hv. þm. Bjarna Benediktssyni og formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir það af hvílíkri snilld hann getur talað og notað máli sínu til stuðnings jákvæðar fréttir og fengið neikvæða niðurstöðu. Hv. þingmaður segir: Já, það er að vísu búin að vera hérna kaupmáttaraukning, en … Það er að vísu hagvöxtur, en … Jú, jú, atvinnuleysi er að vísu að minnka, en samt er þetta allt ómögulegt. Auðvitað er þetta búið að vera erfitt og auðvitað værum við öll sátt við að sjá batann ganga hraðar fram en það er þó þannig að nánast allir mælar og vísar hafa farið í rétta átt.

Verðbólgan er að sjálfsögðu áhyggjuefni og við viljum öll sjá hana hjaðna sem hraðast en það liggja margar skýringar að baki því að hún fór upp á nýjan leik. Kjarasamningarnir settu auðvitað þrýsting á verðbólguna. Hækkanir á heimsmarkaðsverði á hrávörum og olíu setja þrýsting á verðbólguna. (Forseti hringir.) Gjaldskrárhækkanir ríkis og sveitarfélaga gera það auðvitað líka og að síðustu hefur veiking krónunnar að sjálfsögðu ekki verið hjálpleg í þessum efnum. Þess vegna er það afar mikilvægt að gengið hefur nú snúist (Forseti hringir.) við og krónan er að styrkjast og mun það hjálpa til við að taka verðbólguna hraðar niður en ella.