140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

bann við innflutning á hráu kjöti.

[10:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í gær fóru fram umræður um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál. Eðli málsins samkvæmt voru umræðurnar að miklu leyti um Evrópusambandsmál. Eitt af því sem kom til umræðu í þessum umræðum voru samningsmarkmið í landbúnaðarmálum, líkt og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á áðan. Það kom einnig fram í ræðum hjá hv. þm. Sigurgeiri S. Sigurgeirssyni, Jóni Bjarnasyni og fleirum.

Í umræðunum kom fram að samningahópur um landbúnaðarmál hefði aldrei fundað á árinu 2012 eða frá því að hæstv. ráðherra tók við ráðuneytinu. Í umræðunum kom einnig fram að hv. þm. Jón Bjarnason væri mjög óánægður með stöðu landbúnaðarmála hvað þetta snerti og að ekki ætti að virða að fullu varnarlínur Bændasamtakanna í þessu efni, varnarlínur sem ég hef ekki heyrt hæstv. ráðherra eða þingmenn VG gagnrýna. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson svaraði hv. þingmanni fullum hálsi og sagði að Bændasamtökin mundu ekki semja samningsafstöðu fyrir stjórnvöld.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, tók málið upp á vefsíðu sinni í gær og spurði að því hvort barátta Vinstri grænna á sínum tíma fyrir banni á innflutningi á hráu kjöti hefði verið til heimabrúks. Það eru margir sem spyrja sig að því og hafa spurt sig að því hvort ráðherraskiptin um síðustu áramót hafi verið til þess fallin að gefa eftir í varnarlínum Bændasamtakanna.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort staðið verði við varnarlínur Bændasamtaka Íslands varðandi sérstaklega tvo þætti, innflutning á hráu kjöti og tollvernd til íslensks landbúnaðar. Það er einföld spurning: Verður staðið við varnarlínur Bændasamtaka Íslands hvað þessa tvo þætti snertir eða verða þeir gefnir eftir í viðræðum við Evrópusambandið?