140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

bann við innflutning á hráu kjöti.

[10:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þekki ekki nákvæmlega til þess sem hér er nefnt varðandi hversu oft samningahópurinn sem slíkur hefur fundað formlega en ég veit að öll sú vinna er í fullum gangi. Hún er undir forustu ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins eins og kunnugt er. Ég get aflað mér upplýsinga um það og skal koma þeim á framfæri við hv. þingmann ef hann vill vera upplýstur um nákvæma fundatilhögun í þessari vinnu en ég veit að vinnan er á fullri ferð því að af og til eru mér sýnd og borin undir mig ýmis gögn sem því tengjast.

Það verður að sjálfsögðu reynt að standa dyggilega vörð um mikilvæga hagsmuni okkar á sviði landbúnaðar og matvælaiðnaðar og það er alveg ljóst að staðið verður fast á því banni sem við höfum varið í öllum okkar alþjóðasamningum og samskiptum um áratugaskeið og hefur áður komið til minna kasta að gera, til dæmis í GATT-samningunum 1990 við innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti, ef þess er nokkur kostur. Ég sé ekki fyrir mér að við munum auðveldlega samþykkja yfir höfuð aðild að Evrópusambandinu, til dæmis ef það þýddi að galopnað yrði á innflutning á lifandi dýrum og hráu kjöti vegna þess að það er afar mikilvæg varnarlína alla vega í hugum þeirra sem til þekkja.

Að öðru leyti er þessi samningsafstaða að sjálfsögðu mótuð, eins og á öðrum sviðum, í samræmi við þær varnarlínur sem dregnar voru upp í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Það gildir eftir atvikum um tollvernd eða stuðning við landbúnaðinn þannig að við afsölum okkur engu í þeim efnum sem við þurfum til að geta staðið dyggilega vörð um hagsmuni innlendrar framleiðslu þótt allir viti að vísu að það er ekki heiglum hent að ganga í tollabandalag og viðhafa aðrar tollreglur. En það hefur ekkert verið gefið eftir fyrir fram í þeim efnum og það verður farið með allar þær varnarlínur inn í viðræðurnar sem við teljum að gætu reynst okkur best þegar upp yrði staðið í samningunum. En það er reyndar ekki svo. Með fullri virðingu (Forseti hringir.) fyrir Bændasamtökunum og skilningi á því að þau vilji draga ýtrustu varnarlínur gagnvart þessu þá er það ekki svo að afstaða Bændasamtakanna hafi orðið að afstöðu stjórnvalda en hún er að sjálfsögðu skoðuð og höfð til hliðsjónar (Forseti hringir.) og reynt er að byggja á henni eins og kostur er.