140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

bann við innflutning á hráu kjöti.

[10:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Þær varnarlínur sem hér um ræðir og þeir þættir sem spurt var um snerust um innflutning á hráu kjöti og tollvernd til íslensks landbúnaðar. Það lá alveg ljóst fyrir að sá sem áður gegndi þessu embætti, hv. þm. Jón Bjarnason, var með mjög skýra afstöðu gagnvart þessu, að staðið skyldi við varnarlínur Bændasamtaka Íslands hvað varðar þessa tvo þætti.

Hæstv. ráðherra getur ekki svarað því nógu skýrt til hvort staðið verði við þessa þætti og þá er ekki hægt að túlka það öðruvísi en svo, sérstaklega í ljósi þess að ekkert hefur borist til utanríkismálanefndar um málið, engin samningsafstaða eða annað hefur verið kynnt en að hæstv. ráðherra sé að undirbúa það að gefa þetta eftir. Getur hæstv. ráðherra svarað því nákvæmlega hvort standa eigi við þessa tvo þætti eða ekki? Það kom líka fram hjá hæstv. ráðherra þegar hann tók við þessu embætti að engin breyting yrði á afstöðu til landbúnaðarmála (Forseti hringir.) varðandi Evrópusambandsviðræðurnar. Mig langar til að fá einföld og skýr svör: Stendur til að gefa eftir þessa tvo þætti í viðræðunum eða verður það sett skýrt í (Forseti hringir.) upphafi viðræðnanna að það verði ekki gefið eftir?

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.)