140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

bann við innflutning á hráu kjöti.

[10:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég óttast að ég hryggi hv. þingmann því að hann er greinilega á höttunum eftir því að ég játi það á mig að ég sé aumingi og það muni allt leka niður í mínum höndum og að það hafi nú verið munur þegar hetjan Jón Bjarnason reið um héruð. En ég verð að hryggja hv. þingmann. Það stendur ekki til að gefa neitt eftir (Gripið fram í.) sem mikilvægt er til að geta staðið við grundvallarhagsmuni landbúnaðarins þannig að af hálfu okkar verður það ekki gefið eftir fyrir fram að við getum áskilið okkur rétt til tollverndar ef ekki semst um málefni landbúnaðarins með einhverjum þeim hætti að við teljum fullnægjandi á öðrum grundvelli. Það er afstaða okkar að því verður haldið opnu ef annað dugar ekki til.

Það stendur heldur ekki til að gefa eftir bann við innflutningi á hráu kjöti þótt allir geri sér grein fyrir því að sá slagur getur orðið erfiður. Ég held að engum detti í hug að landbúnaðarkaflanum verði nokkurn tímann lokað ef það er ávísun á að leyfa þurfi innflutning á lifandi dýrum. Ég vona að tortryggni hv. þingmanns eigi sér takmörk og það væri gaman ef hann vildi staðfesta það að hann gruni mig ekki um að ég ætli að galopna fyrir innflutning á lifandi dýrum. Það væri ágætt að fara inn í helgina með þá hughreystingu.