140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

sjúklingar sem bíða eftir hjúkrunarrými.

[10:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við vitum að íslenska þjóðin er að eldast og við munum þess vegna sjá meira álag á heilbrigðisþjónustuna. Það eru margar leiðir til að mæta því en ég ætla ekki að fara í þær allar í þessari stuttu fyrirspurn.

Við náðum hins vegar þeim árangri að koma með hentugri úrræði, sérstaklega fyrir eldri sjúklinga og svo sem yngri líka. Við losuðum okkur við þann vanda sem var hér áður þegar of margt fólk var á Landspítalanum, í dýrasta úrræðinu, og á stað sem er bæði dýr og raunar hættulegur fyrir fólk af ýmsum ástæðum; þetta fólk fékk úrræði á hjúkrunarheimilum.

Núna er þessi draugur hins vegar kominn aftur upp. Það hefur ekkert að gera með sparnaðaráform eða neitt slíkt heldur fyrst og fremst stefnu. Það hefur komið fram að búið er að fækka hjúkrunarrýmum um 150, þar af 100 í Reykjavík. Nú eru 45 einstaklingar á Landspítalanum sem eiga ekki að vera þar og það er mikil aukning frá því sem áður var. Við horfum á það að þau hjúkrunarrými sem eru að koma núna, hvort sem er í Garðabæ eða Mosfellsbæ, munu bara verða dropi í hafið miðað við þá þörf sem er til staðar.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. velferðarráðherra hvernig á því standi. Hvernig má það vera þegar allar þessar upplýsingar liggja fyrir, og hafa legið fyrir mjög lengi, að við séum aftur komin í þessa stöðu? Við erum komin í þá stöðu að það eru sjúklingar á Landspítalanum sem ættu að vera annars staðar. Það fyrirkomulag kostar miklu meira og er verra fyrir alla sem að málinu koma.