140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hv. þingmaður tekur þetta mál upp. Eins og ég sagði í ræðu minni tel ég að í þessu máli gildi satt að segja aðeins önnur lögmál en um flesta aðra starfsemi á vegum ríkisins, þ.e. þegar kemur að tekjustofni almannafjölmiðilsins. Við höfum séð það, eins og ég nefndi áðan, að aðrir almannaþjónustufjölmiðlar sem við berum okkur saman við hafa markaðan tekjustofn, oftast í formi afnotagjalda, og ef Ríkisútvarpið til að mynda innheimti afnotagjöld væri þessi umræða líklega ekki einu sinni hér inni þó að afnotagjöldin hafi alltaf birst á fjárlögum.

Við skoðuðum hins vegar ítarlega hvort aftur ætti að fara í það að innheimta afnotagjöld eða breyta innheimtu gjaldsins með einhverjum hætti og komumst að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt að hrófla við því svo fremi sem unnt væri að ná samstöðu um að þessi tiltekni tekjustofn rynni til útvarpsins, óháð því þótt ég sé sammála þeirri heildarstefnumörkun að fækka eigi mörkuðum tekjum og almennt eigi þær ekki að vera innan ríkisfjármálanna.