140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil einnig þakka ráðherra fyrir framsöguræðuna um útvarpið. Ég mun koma betur að ýmsum athugasemdum í ræðu minni á eftir.

Ég vil spyrja, eins og fyrri spyrjandi, út í umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Þar kemur meðal annars skýrt fram að fjármálaráðuneytið gengur út frá því að tillögur í frumvarpinu muni þrengja möguleika RÚV til að afla tekna af auglýsingum og auka á rekstrarkostnað en það feli jafnframt í sér að Ríkisútvarpið verði að draga saman seglin í rekstrinum. Gerir ráðherra sér grein fyrir hvaða starfsemi það er sem Ríkisútvarpið verður samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofunnar að draga saman í tengslum við þetta frumvarp?

Önnur spurning af minni hálfu er í tengslum við þjónustusamninginn. Er eðlisbreyting á þjónustusamningnum sem ætlað er að gera, sýnist mér, samkvæmt 2. gr.? Ætla menn að fylgja svipaðri reglu og mun ráðuneytið þá líka fylgja eftir eftirlitsskyldu sinni í tengslum við þjónustusamninginn hverju sinni?