140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil segja það fyrst að ég hefði að sjálfsögðu viljað leggja þetta frumvarp fram fyrr og ég get ekkert annað gert en að taka það á mig að það hefði mátt koma fyrr fram. Hins vegar vil ég ítreka að frumvarpið hefur hlotið heilmikla efnismeðferð nú þegar og greindi ég frá því áðan að það var í opnu samráðsferli þar sem fjölmargar athugasemdir komu inn og það breyttist talsvert í þeim meðförum þannig að ég vona að sjálfsögðu að það flýti fyrir vinnu nefndarinnar.

Afstaða mín í þessu máli er sú eins og ávallt að ég lít svo á það sé mat hv. þingmanna í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hvort þeir telji sig geta klárað málið. Telji þeir sig ekki geta klárað málið tel ég mikilvægt að þeir geri mér grein fyrir því þannig að unnt sé að ræða það við ESA og tilkynna þeim um það og hvort bregðast þurfi sérstaklega við því.