140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er ekki verið að reyna að blekkja neinn, en þær takmarkanir sem lagðar eru til á auglýsingatímum byggjast meðal annars á upplýsingum frá Ríkisútvarpinu. Ég átta mig á því að ekki eru allir á eitt sáttir um hver nákvæm lengd er á auglýsingatímum eða annað slíkt, en þarna töldum við okkur vera að fara meðalveginn. Ég minni hv. þingmann líka á að þarna er verið að tala um að rjúfa ekki dagskrá og að gjaldskrá sé birt opinberlega sem er eitt af því sem mestar athugasemdir hafa verið gerðar við.

Að sjálfsögðu er það stjórnar Ríkisútvarpsins að fylgja því eftir að sú stefnumörkun sem birt er í lögum um Ríkisútvarpið gangi eftir, en líka fjölmiðlanefndar af því að hv. þingmaður spyr hvernig tryggja eigi hlutlægni. Það er reyndar stór spurning hvernig við tryggjum hlutlægni almennt, en það er þá væntanlega þessara aðila að fylgja því eftir.