140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan byggjum við þetta bæði á upplýsingum frá Fjölmiðlavaktinni og Ríkisútvarpinu sjálfu og teljum að þetta komi til móts við þau sjónarmið að ákveðnar takmarkanir séu innleiddar sem hingað til hafa ekki verið í lögum um Ríkisútvarpið. Að sjálfsögðu er ekki gengið mjög langt þarna, en þetta er hins vegar mjög ákveðið skref í þá átt að draga úr viðskiptalegum sjónarmiðum hjá Ríkisútvarpinu.

Hvað má Ríkisútvarpið ekki gera? Þetta er mjög stór spurning til að svara hér á einni mínútu. En til að mynda er verið að skilgreina hvort Ríkisútvarpið megi taka upp nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og kveðið á um að það skuli óska eftir heimild ráðherra ef áætlað er að hún kosti meira en sem nemi 10% af innheimtu útvarpsgjaldi. Þarna er því verið að koma til móts við þær athugasemdir sem ESA hefur haft uppi um að smíða Ríkisútvarpinu skýrari ramma um hvað megi innan þessa almannaþjónusturamma og hvað ekki. Ég lít svo á að við séum að gera það með því að skilgreina það mun betur í samræmi við þær athugasemdir sem við höfum fengið; og hv. (Forseti hringir.) þingmenn hafa meðal annars spurt mig út í það í þessum sal hvernig við ætlum að koma til móts við þær athugasemdir.