140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir ósk hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Það hefur komið skýrt fram hjá hæstv. menntamálaráðherra, og verum bara hreinskilin í því, að hún hefur ekki svör við þeim spurningum sem snúa að fjármálum og telur að hæstv. fjármálaráðherra verði sjálfur að svara því. Það er mjög skýrt og ég geri engar athugasemdir við það, það er til fyrirmyndar að hæstv. menntamálaráðherra fer ekki í felur með það. Við verðum að fá hæstv. fjármálaráðherra til að svara þessum þætti, það segir sig sjálft.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór mjög vel yfir það að um er að ræða hróplegt ósamræmi. Við getum ekki litið á þetta sem eitthvert eyland, við hljótum að líta á þetta í samhengi við annað sem er að gerast hér. Það er eiginlega mjög erfitt að halda umræðunni áfram án þess að fá hæstv. fjármálaráðherra til að taka þátt í henni og svara spurningum.