140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[12:09]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér nýtt frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Ég vil byrja á því að leggja áherslu á það sem segir í greinargerð með þessu frumvarpi og markar að mörgu leyti mestu tíðindin í því. Það er sú breytta stefnumörkun að Ríkisútvarpið eigi að leggja megináherslu á hlutverk sitt við fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu en hlutverk þess sem fjölmiðill á samkeppnismarkaði verði víkjandi. Þetta felur í sér að megináherslan í starfseminni verði ekki að berjast í blóðugri samkeppni við aðra miðla á fjölmiðlamarkaðnum, þ.e. einkamiðlana, bæði varðandi dagskrá og auglýsingatekjur, heldur verði sett í forgang lýðræðis-, menningar- og samfélagslegt hlutverk Ríkisútvarpsins. Með öðrum orðum á RÚV að hafa metnað til að vera fyrirmyndarfjölmiðill í landinu, ekki eingöngu keppinautur einkaaðila um áhorf, auglýsingatekjur og samkeppnisstöðu á þessum mikilvæga markaði.

Þetta er að mínu mati mikilvæg stefnubreyting. RÚV hefur alltaf haft mikilvægu hlutverki að gegna, en mikilvægi þessarar stofnunar sem hlutlægrar upplýsingaveitu hefur líklega aldrei verið eins ríkt og núna. Það er gríðarleg deigla eins og við þekkjum í þjóðfélagsumræðunni. Eftir fjármálahrunið er krafa almennings um gegnsæi og upplýsingar um stöðu og framgang mála í stjórnsýslunni örugglega meiri en nokkru sinni fyrr, á sama tíma og vantraust og tortryggni á stjórnvöldum er í hámarki, sem er reyndar alþjóðleg þróun — við sjáum það sama í flestum vestrænum löndum um þessar mundir. Við þær aðstæður er gríðarlega mikilvægt og algjörlega nauðsynlegt að í landinu séu fréttamiðlar sem almenningur treystir og getur reitt sig á, sérstaklega þegar framboð er svo mikið sem nú er af ýmiss konar orðræðu sem ekki er alltaf studd traustum rannsóknum eða rökum.

Í þessu frumvarpi er með mun ítarlegri hætti en í fyrri löggjöf um RÚV fjallað um almannaþjónustuhlutverk þess jafnt sem lýðræðislegt, samfélagslegt og menningarlegt hlutverk. Það er líka nýmæli og rétt að vekja sérstaka athygli á því að nú mun utanaðkomandi aðili, fjölmiðlanefndin, árlega leggja sjálfstætt mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverkið. Þetta er mikil framför og breyting frá gildandi lögum þar sem RÚV var ætlað að leggja sjálft fram yfirlit yfir það hvernig stofnunin rækti lögbundið hlutverk sitt sem útvarp í almannaþágu.

Ég vil fara nokkrum orðum um flóruna á íslenskum fjölmiðlamarkaði því að hún hefur breyst talsvert mikið á undanförnum árum. Við sem erum í þessum sal ólumst upp við það að á dagblaðamarkaði voru svokölluð flokksmálgögn. Þau spönnuðu vítt litróf. Við það að lesa öll þessi málgögn gátu menn kannski fengið eitthvert meðaltal af því hvað væri að gerast í samfélaginu á hverjum tíma. En sú staða hefur breyst. Formlega séð heyra flokksmálgögnin sögunni til. Við sitjum eftir með ljósvakamiðla. Tveir ljósvakamiðlar hafa verulega útbreiðslu. Fleiri er reyndar hægt að nefna, eins og ÍNN og Útvarp Sögu, sem miðla upplýsingum um samfélagsmálefni, en dagblaðamarkaðurinn hefur breyst mikið. Þar eru einungis eftir tvö blöð sem geta flokkast undir dagblöð, koma út alla daga vikunnar nema á sunnudögum, Fréttablaðið og Morgunblaðið. Ég held að við verðum að viðurkenna að dagblaðamarkaðurinn er mun fátæklegri fyrir vikið. Við fáum miklu fátæklegri sýn á íslenskan samtíma í gegnum þessi blöð en við fengum á sínum tíma, fyrir nokkrum áratugum, þótt ég sé í sjálfu sér ekki að mæla með því að fjölmiðlamarkaðurinn sé tengdur flokkspólitískum hagsmunum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að afar mikilvægt sé að svo sé ekki.

Staðan er einfaldlega sú að við erum í dag með dagblaðamarkað þar sem í raun og veru er bara eitt flokksmálgagn, það er Morgunblaðið, sem er mjög pólitískt og í ómengaðri stjórnarandstöðu undir forustu fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og leggur mun skýrari áherslu á flokkshagsmuni Sjálfstæðisflokksins en við höfum séð í áratugi frá því ágæta blaði.

Í Fréttablaðinu sjáum við fréttaumfjöllun sem ekki er eins auðvelt að tengja við flokkshagsmuni. Ritstjórnarskrif eru þar yfirleitt í ágætu jafnvægi, hallast sitt á hvað á sveif með stjórn og stjórnarandstöðu. Þar situr reyndar annar fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins á viðhafnarsjónarhóli í helgarblaðinu, en það er þó engan veginn hægt að afgreiða sjónarmið hans út af borðinu sem eingöngu lituð af flokkspólitískum tengslum þótt þau skrif séu fráleitt pólitískt hlutlaus.

Við þessar aðstæður er mikilvægi Ríkisútvarpsins enn þá meira, að vera útvörður hlutlægrar fréttamennsku í samfélaginu. Þar er sú fréttastofa sem nýtur mests trausts almennings í landinu. Ég tel að heilt yfir takist fréttastofunni ágætlega að gæta hlutlægni í umfjöllun sinni um fréttir af innlendum þjóðmálavettvangi.

Ríkisútvarpið þarf að taka mjög alvarlega það hlutverk sitt að gæta jafnvægis í umfjöllun um samfélagsmálefni, t.d. um málefni og umræðu á þinginu. Það er verkefni sem stofnunin þarf að hafa í algjörum forgangi.

Ég held að við getum auðveldlega haldið því fram, og ég geri það, að Ríkisútvarpið gæti staðið sig betur varðandi einmitt lýðræðishlutverkið og að kafa dýpra ofan í samfélagsmálefni, veita stjórnvöldum markvissara aðhald með fréttaskýringum og taka helstu málefni sem eru efst á baugi til dýpri umfjöllunar en við sjáum venjulega í dagblöðum og þá sérstaklega í ljósvakamiðlum á Íslandi. Það er í raun enginn fréttaskýringaþáttur sem stendur undir nafni í sjónvarpinu um þessar mundir þó að einstakir þættir eins og Kastljós sýni á stundum tilburði í þá átt.

Ég hef ekki tíma til að fara kerfisbundið í gegnum öll smáatriði frumvarpsins. Ég vil hlaupa á nokkrum atriðum sem ég tel að sæti tíðindum. Ég tel að það sé mjög athyglisvert skref og framfaraskref að gera þær breytingar á fyrirkomulagi stjórnar sem lagt er upp með í frumvarpinu og þá sérstaklega þann vegg sem settur er upp milli beinna fulltrúa stjórnmálaflokkanna og yfirstjórnarinnar með því að setja inn ákvæði um að hlutverk Alþingis sé að skipa fulltrúa í valnefnd sem síðan leggi fram heildstæða tillögu um það hverjir skulu skipa stjórnina. Þetta sjáum við í ákveðnum löndum í kringum okkur. Ég tel að með þessu sé bæði verið að styrkja stöðu og hlutverk stjórnarinnar, hún fái til viðbótar lögformlegt stefnumótunarhlutverk til lengri tíma sem ég tel að sé mjög mikilvægt.

Komið hefur verið hér inn á þá tilraun sem gerð er í frumvarpinu til að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég tel að mikilvægt sé að stíga það skref. Við getum deilt um það hvort skrefið sé nægilega stórt í frumvarpinu eins og það lítur út en það er þá verkefni nefndarinnar að fara kerfisbundið í gegnum það.

Í umræðunni hér áðan var réttilega bent á að tölur um auglýsingatíma sýna að auglýsingatíminn nær ekki að meðaltali þeim átta mínútum á klukkustund sem hér er talað um. Hins vegar er ljóst af bæði gögnum frá Ríkisútvarpinu sjálfu og óháðum aðilum að þess eru allmörg dæmi að auglýsingamagnið fari umfram það á álagstímum, sérstaklega í desember, þannig að þetta mun sannarlega hafa í för með sér skerðingu á auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins.

Verkefni okkar á þinginu má segja að sé tvíþætt. Við þurfum auðvitað að gæta almannahagsmuna sem felur annars vegar í sér að standa vörð um Ríkisútvarpið sem afar mikilvægan fjölmiðil í landinu og hins vegar að standa vörð um fjölbreytnina á fjölmiðlamarkaðnum og tryggja að gott jafnvægi sé milli ríkisfjölmiðilsins og einkaaðilanna þannig að báðir geti þrifist á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Í því ljósi eru takmarkanir á umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði mikilvægar.

Ég segi það fyrir minn hatt að ég mun fylgja því fast eftir í umfjöllun nefndarinnar að við sitjum raunverulega uppi með aðgerð og breytingu sem dregur úr umsvifum RÚV á markaðnum til að skapa aukið svigrúm fyrir einkaaðilana. Þetta þarf allt að skoðast í samhengi við breytingarnar á þeim tekjum sem Ríkisútvarpið fær í gegnum útvarpsgjaldið. Ég tel að við þurfum að hafa auga með því að alltaf sé eðlilegt og sanngjarnt jafnvægi þarna á milli. Ef RÚV fær auknar tekjur í gegnum útvarpsgjaldið er sanngjarnt að auglýsingatekjurnar dragist saman á móti þannig að einkaaðilarnir hafi úr meiru að spila.

Mig langar aðeins að vekja athygli á því að 12. gr. þessa frumvarps er ekki í fullkomnu samræmi við þau fjölmiðlalög sem við samþykktum á þingi í fyrra og fjalla um réttindi og skyldur starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna. Í fjölmiðlalögunum var sérstaklega rætt um ákvæði um ritstjórnarlegt sjálfstæði og að starfsmenn sem sinna fréttum og fréttatengdu efni og reyndar fagfélög þeirra eða samtök skyldu koma að reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem tæki meðal annars til atriða sem tengjast skilyrðum, áminningum og uppsögnum viðkomandi starfsmanna. Í frumvarpinu um Ríkisútvarpið sem við erum nú að fjalla um er hins vegar gerð sú breyting að útvarpsstjóri setji þessar starfsreglur og hvergi er minnst á neina aðkomu starfsmanna, fagfélaga þeirra eða samtaka að þessu verki. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að halda í heiðri þeirri aðkomu starfsmanna sem við lögðum af stað með í fjölmiðlalögunum.

Eins og hæstv. ráðherra fór vel yfir í máli sínu í framsöguræðunni hefur þetta frumvarp margvíslegan tilgang. Í fyrsta lagi að styrkja og efla lýðræðis- og menningarhlutverk Ríkisútvarpsins, m.a. sem ákveðin viðbrögð við tilmælum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í öðru lagi að draga úr aðstöðumun Ríkisútvarpsins gagnvart fjölmiðlum á einkamarkaði. Í þriðja lagi að bregðast við ábendingum ESA um aðgreiningu samkeppnisrekstrar og opinbers rekstrar. Í fjórða lagi að leggja áherslu á ákveðin skref sem tengjast menningarhlutverkinu.

Skýrt er kveðið á um það að Ríkisútvarpið eigi að vera virkur þátttakandi í innlendri dagskrárgerð. Kvikmyndagerð er sérstaklega nefnd í því sambandi og lögð áhersla á kaup á efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Ég held að þetta sé mikilvægt ákvæði. Ég held að þetta sé annað svið þar sem við getum sagt að Ríkisútvarpið hafi ekki staðið sig sem skyldi í samkeppni við einkamiðla. Ég held að vel megi halda því fram að Stöð 2 hafi að minnsta kosti til skamms tíma haft vinninginn í framleiðslu á innlendu leiknu efni undanfarin ár. Það ætti skilyrðislaust að vera metnaður Ríkisútvarpsins að vera þar í forustu.

Rétt er að vekja athygli á því að Ríkisútvarpið hefur sýnt lofsvert frumkvæði í því að sýna úrval úr íslenskri kvikmyndasögu með framtaki sínu á síðastliðnu ári og ber að fagna því sérstaklega. Það ætti reyndar að vera fastur liður í dagskrá sjónvarpsins að sýna íslenskar kvikmyndir frá öllum tímabilum.

4. gr. frumvarpsins er veigamikil lykilgrein sem markar þá stefnu að sá hluti af starfsemi RÚV sem ekki telst til fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu skuli rekinn í sjálfstæðum dótturfélögum. Þetta er líklega kjarninn í athugasemdum ESA. Þessi dótturfélög lúti þá eftirliti Samkeppniseftirlitsins. Þar með talin er starfsemi sem felst í útgáfu og dreifingu á áður framleiddu efni, sala birtingarréttar á framleiddu efni RÚV, leiga á aðstöðu, tækjum og búnaði o.s.frv.

Með þessari skipan er í reynd reistur eldveggur milli dagskrárdeilda RÚV og dótturfélaga þess þannig að ritstjórnarlegt sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart til dæmis auglýsingadeildinni verði tryggt. Þetta er afar mikilvægt atriði því að á liðnum árum hefur verið gagnrýnt að viðskiptaleg sjónarmið hafi á stundum haft of mikil áhrif á þá dagskrá sem stofnunin hefur boðið upp á.

Útvarpsgjaldið er til umfjöllunar. Harkaleg gagnrýni kemur fram frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á þá ráðstöfun sem lagt er upp með í frumvarpinu. Það er rétt að vekja athygli á því að með þessari ráðstöfun er í raun verið að virða þá leiðsögn sem kom fram í lögunum um Ríkisútvarpið ohf. frá 2007. Ég tel að full rök séu fyrir því að líta með öðrum hætti á Ríkisútvarpið en önnur opinber fyrirtæki í ljósi þess mikilvæga og einstæða lýðræðishlutverks sem stofnunin hefur. Í því ljósi þarf að vera tryggt að stigin séu ákveðin skref til að tryggja sjálfstæði útvarpsins frá stjórnvöldum á hverjum tíma, þó að vel megi fara í gegnum það hvort gera þurfi einhverjar breytingar á framsetningu þessa ákvæðis í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar.