140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[12:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir góða og málefnalega ræðu. Ég sé og heyri að okkar bíður mikið verkefni í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég vil í því samhengi spyrja þingmanninn í fyrsta lagi í ljósi mikilvægis Ríkisútvarpsins — þetta er mikilvæg stofnun í almannaþjónustu — og þess að núna eru um 15 þingdagar eftir og þau frumvörp sem hafa verið lögð fram áður, árin 2006, 2007 og 2008, um Ríkisútvarpið voru öll lögð fram á haustþingi, ekki síst í ljósi þess að menn töldu að þingið þyrfti góðan tíma enda kom það síðar í ljós því að hér voru haldnar miklar ræður, stundum málþófsræður en iðulega knúnar fram af miklum áhuga á Ríkisútvarpinu og vegna mikilvægs hlutverks þess: Telur hv. þingmaður ekki betra að við förum vel yfir þetta, förum vel yfir umsagnir því að þetta er gríðarlega umfangsmikið mál, og síðan leggi ráðherra málið fram að nýju næsta haust með tilliti til bæði vinnu nefndarinnar og athugasemda?

Í öðru lagi spyr ég — og ég vil lýsa yfir eindreginni ánægju minni með þau orð hv. þingmanns að Ríkisútvarpið eigi að draga sig enn frekar af samkeppnismarkaði og einblína alltaf á almannaþjónustuhlutverkið, markmið sem við höfum reynt að stefna að, en ekki síður það að takmarka eigi auglýsingar með ákveðnum hætti: Telur hv. þingmaður ekki rétt að við förum vel yfir það hvernig hægt er að takmarka með markvissari hætti þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði? Í þessu samhengi hef ég sérstaklega ákveðnar áhyggjur af vefnum. Ríkisútvarpinu eru gefnar algjörlega frjálsar hendur á vefmarkaðnum þar sem í rauninni er mesta gróskan í fjölmiðlaútgáfu, hún er á vefnum. Ríkisútvarpinu er hleypt algjörlega óheft inn á þann markað þar sem við sjáum í raun mestu merkin um einmitt frjálsa fjölmiðlun.