140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[12:32]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir ræðu hans um þetta frumvarp. Mig langar að spyrja hann um dótturfélögin og fara þá á bls. 29 í greinargerðinni þar sem segir um 4. gr., með leyfi forseta:

„Lagt er til að eftirfarandi starfsemi Ríkisútvarpsins fari fram í dótturfélögum: sala auglýsinga- og kostunarrýmis í dagskrá móðurfélagsins, sala á dagskrárefni og sýningarrétti á eigin framleiðslu, samframleiðsla á efni með erlendum sjónvarpsstöðvum og fyrirtækjum, sala á dagskrárefni til almennings, leiga á aðstöðu, tækjum og búnaði, og sala á þjónustu og hlutum sem tengjast dagskrárefni.“

Hv. þingmaður ræddi áðan að dótturfélögin væru í raun og veru sett á laggirnar til aðgreiningar frá hinni almennu fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og dótturfélögin væru sett til hliðar til að greina algerlega þar á milli. Þarna er meðal annars talað um sölu á dagskrárefni til almennings. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann líti svo á að dótturfélag geti til dæmis lagt af stað með nýja fjölmiðlaveitu og selt dagskrá hennar fólki í landinu. Er þá hægt að reka samhliða Ríkisútvarpinu, í gegnum skatta, fjölmiðlaveitu í eigu dótturfélags sem selur áskrift að því efni sem þar er að finna?