140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[12:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið, það var skýrt og skorinort. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann um 16. gr., en í henni segir meðal annars, á bls. 8, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpinu er heimilt að setja á fót nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu til reynslu í allt að 24 mánuði. Annars vegar er um að ræða tímabundna þjónustu til að þjóna ákveðnum lýðræðislegum, menningarlegum eða samfélagslegum þörfum og hins vegar þjónustu sem áætlað er að þróa frekar.“

Þá vil ég spyrja hv. þm. Skúla Helgason: Telur hann að með þessari grein og þessari heimild séu lögð drög að því að Ríkisútvarpið ohf. geti sett á laggirnar til dæmis sérstaka kvikmyndadagskrá eða rás með kvikmyndum, sérstaka rás með íþróttaefni, sérstaka rás um stjórnmál og slíkt sé heimilt að setja á laggirnar til reynslu í allt að 24 mánuði án þess að óska þurfi eftir umsögn frá fjölmiðlanefnd? Og ef þetta er réttur skilningur, eru þá tvö ár ekki nokkuð langur tími til að heimila Ríkisútvarpinu ohf. að setja á laggirnar nýja fjölmiðlaþjónustu í tilraunaskyni án þess að fjölmiðlanefnd þurfi að hafa skoðanir á því með einum eða öðrum hætti? Ef þetta er heimild til þess, getur það þá hugsanlega skaðað hinn frjálsa fjölmiðlamarkað?