140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi auglýsingar vil ég að það komi hér fram, af því að það kom ekki nægilega skýrt fram fyrr í umræðunni, að upplýsingarnar eru byggðar á tölum frá Capacent sem safnar tölum um lengd auglýsingatíma við gerð þessa og í samskiptum við Ríkisútvarpið voru kostnaðaráhrifin af skerðingu metin. Þar kemur til að mynda fram að farið er yfir átta mínútna þakið 113 sinnum á árinu, það er meðaltal miðað við 2010 og 2011 þannig að ljóst má vera að við teljum að við séum þarna að skerða auglýsingatekjur nokkuð. Útreikningar á því birtast síðan í kostnaðarmati. Þarna er talað um 80 millj. kr. tekjuskerðingu ef við horfum bara á mínútutalninguna.

Ég talaði áðan um að gera gjaldskrána opinbera og takmarka rof á dagskrárliðum með auglýsingum, en það hefur takmarkandi áhrif sem ég reikna að sjálfsögðu með að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari betur yfir og rýni. Ég tek undir með hv. þingmanni, hér er ekki verið að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði en ég held því fram og stend við það að þarna sé stigið marktækt skref í átt að því að færa Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og draga úr viðskiptasjónarmiðum í starfsemi þess.

Hvað varðar hlutverk Ríkisútvarpsins held ég að ég og hv. þingmaður höfum ólíka sýn á þau mál. Núgildandi löggjöf um Ríkisútvarpið er mjög opin. Ekki er verið að banna Ríkisútvarpinu að gera tiltekna hluti, eins og mér finnst hv. þingmaður vera að inna mig eftir varðandi hvað Ríkisútvarpinu sé óheimilt að gera. Ég tel hins vegar að verið sé að skýra hlutverkið mun betur og ég þakka hv. þingmanni fyrir að tala um fallegt frumvarp. Ég lít á það sem hrós en ég tel að verið sé að skýra það, það er til dæmis verið að setja upp ákveðið ferli þannig að Ríkisútvarpið getur ekki ákveðið að taka upp nýja þjónustu, svo dæmi sé tekið, nema slíkt fari í gegnum ákveðið ferli, fái umsögn fjölmiðlanefndar og heimild ráðherra, þannig að það er ákveðin takmörkun í þeim efnum. En hins vegar er spurning hvaða sýn fólk hefur á almannaþjónustumiðilinn. Á hann til að mynda að vera með afþreyingu, eins og hv. þingmaður nefnir? Ég er þeirrar skoðunar að almannaþjónustan eigi einmitt að vera með fjölbreytt efni fyrir sem flesta en ekki að festa sig í því að vera eingöngu með afþreyingu, svo dæmi sé tekið, og það er auðvitað ákveðin takmörkun því að margvíslegar skyldur eru lagðar á herðar Ríkisútvarpinu í þessu frumvarpi sem gerir það að verkum að það er mikið mál að standa undir þeim og sýnir að það mun alltaf verða fjölbreytt dagskrá.