140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég ljúki þessu með auglýsingarnar eru það stærri skref en stigin hafa verið hingað til í að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Það held ég að sæti ákveðnum tíðindum.

Hvað varðar kostunina er það vissulega eitthvað sem ég skoðaði í aðdraganda málsins en niðurstaðan varð sú að það gæti orðið auðvelt að fara fram hjá ákvæðum um kostun og þess vegna var talið einfaldara í framkvæmd að setja fáar skýrar reglur um gagnsæja gjaldskrá, mínútuhlutfall og ekki rjúfa efni. Það var ástæðan fyrir því. Ég reikna með því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari ítarlegar yfir það.

Hvað varðar hlutlægnikröfuna, sem ég tel mjög mikilvægt að við setjum í lög og gerum ríkar kröfur til Ríkisútvarpsins um að sinna, finnst mér erfitt að leggja mat á það sem hv. þingmaður segir. Ég get sjálf nefnt að ég held að ég hafi til að mynda aldrei komið í fréttaumræðuþáttinn um stjórnmál, þann eina umræðuþátt um stjórnmál sem er vikulega í sjónvarpi, síðan ég varð ráðherra og mér finnst það ekki vera til marks um að Vinstri græn hafi ótakmarkaðan aðgang að Ríkisútvarpinu. Ég held að við þurfum aðeins að horfa á í hvaða stöðum fólk er, eðlilega eru sumir ráðherrar meira í fréttum en aðrir. Þeir eru oftar kallaðir til. Formenn stjórnmálaflokka eru oftar kallaðir til en aðrir þannig að ég tel að við ættum að horfa á þetta líka í því samhengi. En með þessu frumvarpi er búið að leggja á ríka lagaskyldu sem eðlilegt er að stjórn Ríkisútvarpsins fylgi eftir sem ábyrgðaraðili og ég ætlast til í framhaldinu að þetta sé kannað og og skoðað með reglubundnum hætti.