140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt og gott andsvar og ef öll samræða í þinginu væri svona eins og hjá okkur held ég að það hefði góð áhrif á umræðuna.

Ég er ekki sammála honum, hann fer upp í næstum 250 millj. kr. með ákvæðunum um að rjúfa dagskrá og hafa hámarkið 8 mínútur. Þetta eru tölur fengnar frá Ríkisútvarpinu, eftir því sem ég best veit, en allir sem hafa komið nálægt svona rekstri vita að það er hægt að fara fram hjá þessu. Það er alveg útilokað að þetta muni hafa þau nettóáhrif að tekjurnar minnki um 250 millj. kr., þó að það sé reiknað með þessum hætti. Meðan menn eru til dæmis með kostun inni eru svo sannarlega enn þá fleiri möguleikar. Það er hægt að fara mun betri og skilvirkari leiðir til að minnka hlut Ríkisútvarpsins á þessum markaði.

Svo ég segi það aftur, það sem er gott í þessu er, ef ég skil þetta rétt, að gjaldskráin verður opin og gagnsæ og ekki verður hægt að veita afslætti af henni. Ef það verður þannig þá erum við að stíga rétt skref og ég mun bara fagna því og hrósa hæstv. ráðherra fyrir það.

Varðandi fréttaþjónustuna þá vil ég lesa aftur það sem ég las áðan um hlutverk Ríkisútvarpsins sem á meðal annars að, með leyfi forseta:

„Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.“

Við erum búin að taka þetta út. Það liggja fyrir upplýsingar um hverjir koma fram í þessum þætti sem hefur auðvitað mótandi áhrif á umræðuna og það er mikil slagsíða, það er alveg sama hvernig menn nálgast það. Nöfnin eru tilgreind og við vitum alveg hvar þetta fólk liggur í stjórnmálum þannig að þarna er slagsíða. Ég held að ekki sé hægt að þræta fyrir það með nokkrum hætti.