140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:35]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ef menn fullyrða að vinstri slagsíða sé á Ríkisútvarpinu þá held ég að við verðum að skoða allt samhengi hlutanna. Við verðum að skoða sérstaklega þá þætti sem hafa langmest áhrif á almenning í landinu og hafa mesta útbreiðslu. Þar eru fréttirnar í algerum sérflokki. Ég held að það megi halda því fram að slagsíða sé á fréttum frá þinginu en einmitt á hinn vænginn, hún sé ekki í þágu þeirra stjórnmálaafla sem núna eru við stjórnvölinn í landinu. Það kunna að vera ágæt rök fyrir því að gera það. Ég held að vel megi segja að fjölmiðlar eigi alla jafna að vera gagnrýnni á stjórnvöld hvers tíma en þá sem eru í stjórnarandstöðu, en það væri sannarlega forvitnilegt að fá tölfræði um hvernig þessi umfjöllun er í fréttatímunum sem langmestu máli skipta.

Hér áðan var miklum tíma varið í að fara í gegnum skilgreininguna á útvarpsþjónustu í almannaeigu. Mig langaði í því sambandi að vitna í gildandi lög um Ríkisútvarpið frá árinu 2007. Þar segir, með leyfi forseta:

„Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi: […] Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni.“

Síðar segir:

„Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri.“

Og enn síðar:

„Að flytja efni á sviði lista, vísinda, sögu, íþrótta og annars tómstundastarfs.“

Ég kem ekki auga á neina takmörkun í lögunum á þeim mjög svo víða ramma sem þar er boðið upp á. Ég held að ef við berum saman gildandi lög og svo frumvarpið sé einmitt frekar verið að draga fram meginatriði og þau atriði sem eiga að vera í forgangi, þ.e. lýðræðishlutverkið, menningarhlutverkið og síðan samfélagshlutverk RÚV.