140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst biðjast velvirðingar á því að ég komst ekki yfir að svara spurningunni sem hv. þingmaður endaði á, varðandi hvað standi í núverandi lögum. Ég held að hv. þingmaður geti flett upp, ef hann er sérstakur áhugamaður um ræður mínar og skoðanir sem ég vona að hann sé, og fundið einhverja ræðubúta með svipaðri gagnrýni og nú. (Gripið fram í.) Ég held að flestir Íslendingar vilji hafa einhvers konar ríkisútvarp en ég hélt að sátt væri um að reyna að hafa það skilgreint hvað Ríkisútvarpið ætti að gera. Ég sagði í upphafi ræðu minnar að menn væru búnir að reyna það hvað eftir annað og væru ekki enn komnir að niðurstöðu um hvað Ríkisútvarpið ætti að gera. Hér fara menn hins vegar ekki í neinar felur með það og hæstv. ráðherra fer ekki í felur með það, það á bara að gera allt. Svo er bætt í og sagt að það eigi að vera að minnsta kosti tvær útvarpsdagskrár og ein sjónvarpsdagskrá. En auðvitað geta menn síðan opnað fyrir allt annað, þannig að ef Ríkisútvarpið hefur haft mikla útrásarstefnu fram til þessa þá á aldeilis að gefa í núna.

En varðandi vinstri slagsíðuna liggur fyrir að við höfum þessar tölur úr fréttaþáttunum. Ég mundi ætla að það væri skynsamlegt að viðurkenna orðinn hlut og koma með eitthvert mótvægi í Ríkisútvarpið. Ef eitthvað nýtur vinsælda þá er sjálfsagt að hafa það, en þá á að koma inn eitthvert mótvægi.

Varðandi fréttatímann þá skulum við skoða það, ekkert mál. Það liggur allt fyrir, við reynum að greina það. En þessi umræða og umræðuhefðin á Íslandi og feluleikurinn með að setja í faglegan búning einhverjar pólitískar skoðanir, er engum til góðs (Forseti hringir.) og vonandi séríslenskt, ég hef alla vega ekki séð þetta í öðrum löndum.