140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum efnismikið frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Þegar frumvarpið er skoðað í fyrstu atrennu og maður sér að fjölmiðill í almannaþágu er komið í heiti frumvarpsins, þá hefur maður ákveðnar væntingar, þær væntingar að hér sé reynt að skilgreina hvað fjölmiðill í almannaþágu sé og hvernig hann sé öðruvísi en aðrir fjölmiðlar. Þess vegna kemur skilgreiningarákvæðið, sem er 3. gr. frumvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, svolítið á óvart. Það er að mínu mati afskaplega rúmt og í rauninni er erfitt að upphugsa eitthvert tilfelli sem gæti ekki fallið þarna undir. Við þekkjum öll gagnrýnisraddirnar frá einkareknum fjölmiðlum sem hafa verið háværar frá því að frelsi var gefið í þessum málum hér á landi varðandi auglýsingastarfsemi ríkisfjölmiðla. Mig langar að nota tækifærið í þessari ræðu til að fara líka aðeins yfir þann hluta málsins.

Hér er gerð tilraun til að skilja að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu annars vegar og samkeppnisstarfsemi hins vegar. Ég er kannski búin að uppljóstra um mína afstöðu til þessarar tilraunar vegna þess að ég sé ekki muninn, ég get ekki hugsað upp nein tilfelli sem falla ekki þarna undir.

Starfsemi Ríkisútvarpsins fellur undir styrkjareglur og samkeppnisrétt EES-samningsins og aðeins er farið í það í greinargerðinni með frumvarpinu en það er náttúrlega ljóst að við þurfum að uppfylla þau skilyrði sem þar koma fram. Alkunna er að ESA hefur gert athugasemdir við ríkisstyrki og þess vegna er reynt að bregðast við því í frumvarpinu og gerð tilraun til þess en það er spurning hvort nægilega langt sé gengið. Ég vil vekja athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag eftir Friðrik Friðriksson, sem er hagfræðingur og framkvæmdastjóri Skjásins, þar sem er farið ágætlega yfir þetta. Þar eru dregin fram þau viðmið sem dómaframkvæmd dómstóls ESB hefur í rauninni lagt varðandi framlag til fjölmiðils í almannaþágu, þ.e. hvenær er fjármögnun ríkisins, eða ríkisaðstoð eins og það er kallað, orðin ólögmæt. Í greininni er rakið ágætlega hvaða skilyrði það eru sem dómstóllinn hefur sett fram, því að það er kannski ekki nóg að lesa samninginn sjálfan. Samt er vísað í samninginn og farið í þann þátt í athugasemdum við frumvarpið á bls. 19 og síðan betur í athugasemdum með 3. gr., þ.e. frá bls. 23 og áfram. Þar er tiltekin þessi grein, 2. mgr. 59. mgr. EES-samningsins, samanber lög nr. 2/1993, og farið yfir hana en hins vegar er ekki farið neitt í dómaframkvæmdina. Það er eitthvað sem við þurfum kannski að ræða hér.

Í greininni sem ég vitnaði til áðan er farið yfir fjögur atriði sem dómstóll ESB hefur fjallað um. Í fyrsta lagi þarf að skilgreina með óyggjandi hætti almannaþjónustuhlutverkið. Ef við skoðum ákvæðið þar sem skilgreiningin kemur fram, 3. gr., þá tekur það eina og hálfa blaðsíðu í frumvarpinu og undir það fellur afskaplega margt, eins og ég nefndi áðan. Það væri gott að fá frá hæstv. ráðherra hvort ráðherrann hafi við vinnslu frumvarpsins eða þeir sem unnu þetta frumvarp fundið einhver dæmi um starfsemi eða dagskrárgerð sem falli ekki þarna undir.

Í öðru lagi, miðað við dómaframkvæmdina, þurfa forsendur ríkisframlagsins að vera ákveðnar með hlutlægum og gagnsæjum hætti. Það er sérkapítuli hvernig gert er ráð fyrir að fjármagna RÚV og ég ætla að leyfa mér að fara yfir það í stuttu máli hér á eftir ef ég kemst yfir það á þeim stutta tíma sem ég hef.

Í þriðja lagi má ríkisframlagið ekki fara umfram það sem nauðsynlegt er til að fjármagna almannaþjónustuhlutverkið. Miðað við þær forsendur sem gefnar eru í frumvarpinu á RÚV framvegis að hafa markaðar skatttekjur með því móti að innheimtar tekjur af núverandi útvarpsgjaldi renni til félagsins í stað þess að félagið fái fjárveitingu sem byggist á beinum framlögum úr ríkissjóði. Ég get ekki annað séð en að farið sé alfarið gegn þeim skilningi sem lesa má úr dómum dómstólsins vegna þess að framlagið er þá í raun ekki skýrt og afmarkað heldur sveiflast eftir því hvernig gengur í efnahagslífinu. Það er því á engan hátt hægt að segja að það sé skýrt og afmarkað.

Í fjórða lagi kemst greinarhöfundur að þeirri niðurstöðu út frá dómum dómstólsins að ríkisframlagið þurfi að endurspegla það sem dæmigert vel rekið fyrirtæki þyrfti til að inna af hendi þetta sama hlutverk. Þá getur hver sem er sem skoðar þetta velt því fyrir sér hvernig venjulegt fyrirtæki yrði rekið á þeim framlögum sem, miðað við forsendur frumvarpsins, sveiflast upp og niður eftir efnahag. Fari hagur okkar Íslendinga batnandi, eins og við öll vonum, aukast tekjurnar jafnt og þétt. En það er erfitt að sjá hvernig þetta hlutverk í almannaþjónustu eigi að sama skapi að aukast við slíkar aðstæður. Þetta er að mínu mati þversögn í frumvarpinu.

Varðandi auglýsingahlutann er gert ráð fyrir því í 7. gr. frumvarpsins að gæta skuli hófsemi í birtingu auglýsinga. Talsvert hefur verið fjallað um það í dag að verið sé að takmarka hversu mikið af auglýsingum RÚV getur selt. Í 7. gr. kemur fram, með leyfi forseta:

„Við myndmiðlun skal hlutfall auglýsinga og fjarkaupainnskota innan hverrar klukkustundar ekki fara yfir 8 mínútur.“

Þarna er talað um þessar 8 mínútur og mikið hefur verið gert úr því og sagt að fyrir liggi útreikningar um að verið sé að takmarka tekjumöguleika RÚV verulega. Hæstv. ráðherra kom upp í andsvar áðan við þingmann og hélt fram einhverjum tölum um úttektir sem Capacent hafði tekið saman. Þær tölur koma ekki fram í frumvarpinu eða í greinargerð með því, ég sé að minnsta kosti ekki neina ítarlega útlistun á þessu. Ég held að það væri mjög þarft að leggja fram þessar tölur vegna þess að maður hefur heyrt, eftir að þetta frumvarp var lagt fram, að menn greinir mjög á um hvort þetta sé raunveruleg takmörkun eða ekki. Því hefur verið haldið fram af aðilum sem hafa gert eigin úttekt á þessu að nánast sé hægt að telja það á fingrum annarrar handar hvenær tíminn fari yfir 8 mínútur, en það sé í kringum jól og áramót. Á meðan ekki eru lagðar fram þessar tölur, sem ég ímynda mér að ráðuneytið hafi látið taka saman, nær maður ekki alveg utan um þennan þátt röksemdafærslunnar.

Síðan er spurning, frú forseti, af hverju ekki er gengið lengra en gert er með þessari 8 mínútna reglu vegna þess að þunginn í umræðunni snýst um auglýsingatekjurnar. Maður skilur vel einkaaðila sem vinna á þessum markaði og horfa alltaf á þennan stóra aðila sem sópar til sín gríðarlega miklu af auglýsingatekjum enda áhorf mikið á RÚV, sem betur fer og það nær til allra landsmanna og á að ná til allra landsmanna. Það er auðvitað erfitt að keppa við RÚV við slíkar aðstæður. Þess vegna þarf að rökstyðja mjög ítarlega hvers vegna, nú þegar gera á breytingar, svigrúmið sé enn þá svona mikið fyrir RÚV þrátt fyrir þá miklu umræðu sem fram hefur farið og þær athugasemdir sem gerðar hafa verið um samkeppnisstöðuna og markaðinn.

Það er eiginlega hægt að segja að með þessum breytingum, sérstaklega þeim breytingum sem lagðar eru til á fjármögnun Ríkisútvarpsins, sé verið að óska eftir 700 millj kr. hækkun til Ríkisútvarpsins. Það eru talsverðir fjármunir í ljósi þess hvernig umhverfi flestallra ríkisstofnana hefur þróast á undanförnum missirum. Þarna er ansi vel í lagt að mínu mati. En það væri efni í heila aðra ræðu að fjalla um umsögn fjármálaráðuneytisins um þetta mál en ég fór örlítið inn á það þegar ég ræddi um ESB-dómstólinn og reglurnar varðandi EES-samninginn. Ég ætla að eftirláta öðrum að fara ítarlegar í þann rökstuðning ráðuneytisins en í stuttu máli er algerlega ljóst að það er greinilega grundvallarmunur á því hvernig menntamálaráðuneytið vill nálgast þetta mál og hvernig fjármálaráðuneytið sér það fyrir sér. Það er svolítið einkennilegt að sjá svona mikinn ágreining á milli ráðuneyta á þessu stigi máls. Það verður væntanlega einblínt svolítið á þessa hlið í nefndarstörfunum og verður mjög fróðlegt að sjá hvort sjónarmiðið verður ofan á. Ef ég fer örstutt í það þá fullyrðir fjármálaráðuneytið að þetta fyrirkomulag fari algerlega gegn núverandi fyrirkomulagi sem gildi almennt um rekstur ríkisins, og þetta er ekki sérstaklega hátt skrifað eða vel séð uppi í ráðuneyti. Það væri mjög fróðlegt að fá fram í seinni ræðu ráðherra viðbrögð við áliti ráðuneytisins.

Annars ætla ég ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Það væri gott ef ráðherrann gæti í seinni ræðu sinni farið aðeins yfir sjónarmiðin varðandi dómaframkvæmdina, þ.e. dómafordæmin sem liggja fyrir, hvort þetta hafi eitthvað verið skoðað í ráðuneytinu þegar frumvarpið var í smíðum. Gott væri líka ef ráðherra færi jafnframt aðeins yfir það með okkur hvaða, ef nokkur, tilfelli komu upp í huga þeirra sem skrifuðu frumvarpið sem féllu ekki undir það verkefni Ríkisútvarpsins sem tíundað er í 3. gr. frumvarpsins, um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, einfaldlega til þess að maður átti sig aðeins betur á því hvort manni hafi sést yfir einhver stór atriði sem hugsanlega hafa verið tekin þarna út og þannig takmarkað verksvið Ríkisútvarpsins í almannaþágu.