140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[15:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langar að spyrja hann um það gjald sem greitt er til útvarpsins sem er eins og stendur á bls. 43 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Útvarpsgjaldið er árgjald sem greitt er af þeim einstaklingum og lögaðilum sem eru tekjuskattsskyldir en ekki af þeim sem falla undir þau mörk og þeim sem eru innan 16 ára aldurs eða eru 70 ára og eldri.“

Hver er skoðun hv. þingmanns á því að hjá útvarpi í almannaþágu eins og hér er sé innheimt gjald með þessum hætti af þeim sem hafa tekjur til þess að greiða en öðrum ekki og ef horft er á þær sveiflur sem geta orðið í innkomu eftir því hvernig hagur þjóðarbúsins vænkast eða úr honum dregur? Sér hv. þingmaður hugsanlega einhverja aðra leið en tengja þetta árgjald við tekjur þeirra sem gert er að greiða, þ.e. þeirra sem eru 16 ára til sjötugs og síðan lögaðila?

Jafnframt vil ég spyrja hv. þingmann hver skoðun hans sé á því að um hálfgerða tvísköttun, ef svo mætti segja, er að ræða þegar lögaðilum er jafnframt gert skylt að greiða þetta árgjald, lögaðilum sem öllu jöfnu eru einstaklingar sem á sinni eigin skattskýrslu greiða jafnframt þetta árgjald.