140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[15:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það hafa ýmsar athugasemdir komið fram í ágætri umræðu hjá hv. þingmönnum um þetta mál. Talsvert hefur verið rætt um almannaþjónustuhlutverkið og hvort mikilvægt sé að skilgreina það nánar. Ég vil segja það hér að mikil vinna var lögð í þessa skilgreiningu og leitað í brunn annarra ríkja sem við viljum bera okkur saman við þar sem eru öflugir almannaþjónustumiðlar. Það er undirstaðan fyrir þeirri grundvallarbreytingu sem lögð er til, þ.e. að fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu sé aðskilin í Ríkisútvarpinu frá annarri starfsemi í dótturfélagi. Þetta er mál sem búið er að liggja talsvert yfir í þeim starfshópi sem ég skipaði og farið hefur verið yfir það líka með sérfræðingum ESA. Af því að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir spurði út í þau lögfræðilegu álitamál sem hún nefndi í evrópsku samhengi þá hefur verið haft markvisst samband við sérfræðinga ESA um frumvarpið og það er mat sérfræðinga ráðuneytisins að frumvarpið, eins og það lítur út núna, uppfylli og komi til móts við þær athugasemdir sem þar hafa verið settar og uppfylli þær kröfur sem þar hafa verið lagðar fram.

Það er engin ástæða til að ætla að dótturfélagið muni hafa það í för með sér að Ríkisútvarpið stofni nýjan fjölmiðil í samkeppni við aðra fjölmiðla. Ætlunin er einmitt að styrkja almannaþjónustuhlutverkið, sem er meginhlutverkið, frá því sem við getum tengt samkeppnisrekstri hvort sem það er auglýsingasala, sala á efni eða annað slíkt sem er ekki það sem við getum kallað almannaþjónustuhlutverk.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði sérstaklega út í setu framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar í nefndinni sem sat í starfshópnum sem samdi frumvarpið í upprunalegri mynd. Ég vil leggja áherslu á að það frumvarp sem hér er lagt fram er mitt frumvarp og ég legg það fram. Núverandi framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar sat í starfshópnum sem skilaði tillögu til ráðherra, hún sat í honum til enda. Ég man ekki nákvæmar dagsetningar á því hvort hún var þá orðin framkvæmdastjóri en eftir það fór tillagan í almenna kynningu sem var snemma þessa árs og í framhaldinu var unnið frumvarp innan ráðuneytisins sem ég legg svo fram í mínu nafni. En mér finnst eðlilegt að hv. þingmaður spyrji því að hún spyr í raun og veru um það að fólk starfi samkvæmt lögum sem það semur sjálft en það eru auðvitað fjölmörg dæmi um það. Ég nefni sem dæmi að hæstaréttardómarar og aðrir dómarar hafa samið frumvörp sem þeir vinna svo eftir. Það er eðlilegt að hv. þingmenn skoði þetta, en þannig var sem sagt ferlið á málinu.

Það hefur verið rætt talsvert um stjórnarskipunina og þetta nýja fyrirkomulag sem fyrst og fremst er ætlað til að styrkja fjölbreytta samsetningu stjórnar. Ég var efins um það sjálf þegar sú hugmynd var lögð fram að ráðherra skipaði formann stjórnar, en rökin með því, og það voru þau sem ég féllst á, voru að skýra ábyrgð ráðherra á Ríkisútvarpinu. Alþingi hefur sýnt það í verki að það telur að Ríkisútvarpið eigi heima hjá mennta- og menningarmálaráðherra. Ég hef áttað mig á því til að mynda í þeim fyrirspurnum sem beint er til mín en eiga jafnvel heima hjá fjármálaráðherra ef við miðum við að fjármálaráðherra fari með umboð ríkisins og eignarhald á hlutabréfinu. En ástæðan fyrir því að þetta er lagt til er sú að talið er þá vera samræmi í því að hluturinn færist til mennta- og menningarmálaráðuneytis og formaður sé skipaður af ráðherra. Þetta er ekki sjálfgefið og mér finnst eðlilegt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari yfir skipan stjórnar og sérstaklega þessa formennsku.

Um hlutabréfið sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi sérstaklega eru vafalaust skiptar skoðanir og ég held að rökin geti verið jafnrétthá með hvoru sjónarmiðinu. En það er mín eindregna skoðun, og ég tel mig hafa góð rök fyrir henni, að Ríkisútvarpið sé ekki eins og hvert annað opinbert fyrirtæki á markaði. Það hefur verið stefna ríkisins í takt við stefnu til að mynda annarra Norðurlanda að hlutabréf í opinberum félögum færist öll yfir til fjármálaráðherra og þar er rætt um samræmi. Horfum til Noregs af því að það er þangað sem við höfum sótt okkar fyrirmyndir í smíði frumvarpa og laga um almannaþjónustufjölmiðilinn. Þar fer fjármálaráðherra með öll hlutabréf norska ríkisins í opinberum hlutafélögum nema NRK. Þar er það talið ljóst að það sé fyrst og fremst menningarstofnun en ekki fyrirtæki á markaði og fer þar af leiðandi í menningarmálaráðuneytið með löggjöfina, með hlutinn og með stjórnina. Og mér finnst þetta vera menningarpólitískt mál. Það er gott og vel að tala hér eins og gert er í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis upp á lagasamræmi sem mér finnst ekki endilega byggja á mjög inntaksmiklum rökum. Stundum getur fólk farið offari í því að vera með mikið samræmi á pappírunum en það getur líka valdið vandræðum ef til að mynda fagþekkingin sem er tvímælalaust til staðar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er ekki í fjármálaráðuneytinu, hún þarf að vera til staðar til að unnt sé að fara með eignarhlut. Af þeim sökum legg ég þetta til.

Hér var rætt um safn Ríkisútvarpsins. Í 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. er rætt um varðveisluhlutverk Ríkisútvarpsins hvað varðar hljóðritanir, filmur, myndefni og aðrar sögulegar minjar sem ætla megi að hafi menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og heyrir ekki sérstaklega undir lög um skylduskil safna. Þar er í raun gefin sú heimild að Ríkisútvarpið geti óskað eftir því við viðurkennd söfn að annast varðveislu framangreindra menningar- og söguminja. Óheimilt er að selja frá sér, gefa eða farga verðmætum nema að fenginni umsögn safnaráðs.

Mér fannst koma mjög góðar athugasemdir fram bæði hjá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur og hv. þm. Margréti Tryggvadóttur varðandi aðgengi almennings að þessum minjum og mér finnst eðlilegt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði hvort skerpa þurfi á því í frumvarpinu.

Við höfum rætt talsvert um hinn markaða tekjustofn. Ég vil minna á að í því frumvarpi sem lagt var fram í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks veturinn 2006–2007 og samþykkt 2007 var gert ráð fyrir þessum markaða tekjustofni. Segja má að við hverfum aftur til þess að hafa hann markaðan. Ég hef fært fyrir því rök að ég telji að þarna gildi sérstök rök um almannaþjónustumiðilinn. Ég átta mig á því að ekki eru allir hv. þingmenn sammála þeim rökum en ég tel mig hafa fært þau fram hér. Ég minni líka á að ákveðið var á sínum tíma að hverfa frá afnotagjöldunum. Það má auðvitað ræða það og við ræddum það hvort ástæða hefði verið til að fara aftur í það kerfi. Við ákváðum að gera það ekki en ákváðum um leið að ef við héldum þessu útvarpsgjaldi sem fólk greiðir fyrir að fá sinn almannaþjónustumiðil þá yrði það gert með því að hann væri markaður eins og afnotagjöldin voru á sínum tíma. Afnotagjöldin birtast auðvitað í fjárlögum, og það gerir það líka eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson bendir á, enda kemur skýrt fram að framlagið miðast við innheimtar tekjur. Að sjálfsögðu fer það í gegnum fjárlögin. En kannski er ástæða fyrir nefndina að spyrja fyrst grundvallarspurningarinnar: Hvaða gildi ætlum við að hafa að leiðarljósi í þessu? Ef okkur finnst mikilvægt að Ríkisútvarpið hafi sjálfstæðan tekjustofn, sem mér finnst mjög mikilvægt, þá getum við rætt í hvaða formi hann eigi að vera, hvort rétt sé að gera það með útvarpsgjaldinu, afnotagjaldinu eða með öðrum hætti. En ég vil minna á að þetta er að minnsta kosti það sem þingmenn voru sammála um á sínum tíma þegar lögin 2007 voru samþykkt, þótt margir hefðu áhyggjur af útvarpsgjaldinu og bentu á ýmsa vankanta við það, þ.e. að Ríkisútvarpið ætti að hafa þennan sjálfstæða tekjustofn.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spyr sérstaklega út í bréf sem vitnað er til í umsögn fjárlagaskrifstofu. Það er í raun og veru ekki frá mennta- og menningarmálaráðherra eingöngu heldur einnig frá þáverandi fjármálaráðherra, sent til stjórnar Ríkisútvarpsins. Þar eru fyrst og fremst athugasemdir við ársskýrslu Ríkisútvarpsins þar sem verið er að ræða um nákvæmlega þetta, þ.e. markaðan tekjustofn. Í viðkomandi ársskýrslu er bent á að fjárveitingar Alþingis hafi ekki fylgt heimtum af útvarpsgjaldi. Og það er vissulega rétt að undanfarin ár hefur Ríkisútvarpið fengið minna á fjárlögum en innheimt hefur verið af útvarpsgjaldi. Í þessu bréfi er bent á að það hafi þó ekki alltaf verið þannig, til að mynda á árinu 2009 hafi Ríkisútvarpið fengi meira á fjárlögum en innheimtist af útvarpsgjaldi. Einnig er rætt um að það sé mjög mikilvægt, og það er það sem vitnað er í í kostnaðaráætlun, að Ríkisútvarpið leggi fram rekstraráætlun um ætlaða tekjuþörf til að standa undir nauðsynlegum kostnaði við útvarpsþjónustu í almannaþágu og til þess er vitnað í umsögninni. En þetta bréf er sem sagt sent af þáverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, og mér. Ég ætla að leyfa mér að vitna í bréfið því að þar segir í lokin, með leyfi forseta:

„Dæmin sanna að undanfarin ár hafa stjórnvöld lagt mikla áherslu á að styðja við Ríkisútvarpið og tryggja þar með fjárhagslegt og ritstjórnarlegt sjálfstæði þess þrátt fyrir gríðarlega erfiða stöðu í ríkisfjármálum. Reynslan hefur þó einnig leitt í ljós að það fyrirkomulag sem nú er á fjármögnun Ríkisútvarpsins er ófullkomið og því er mikilvægt að aðrar leiðir við fjármögnun stofnunarinnar verði meðal þess sem horft verður til þegar kemur að endurskoðun laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., þannig að tryggja megi enn frekar ritstjórnarlegt og fjárhagslegt sjálfstæði.“

Það má vera ljóst og fjármálaráðuneytinu má vera það ljóst líka að þetta hefur verið áhyggjuefni um nokkurt skeið, þ.e. hvernig megi tryggja það að Ríkisútvarpið geti haft ákveðið öryggi í fjárveitingum og það sé ekki í beintengingu, getum við sagt, við hið pólitíska vald þó að að sjálfsögðu liggi alltaf hin endanlega ákvörðun í afgreiðslu fjárlaga.

Það hafa verið farnar ýmsar leiðir hjá almannaþjónustumiðlum sem til að mynda innheimta afnotagjöld eða eru fjármagnaðir með sjálfstæðum tekjustofni, eins og í Finnlandi. Þar eru gerðir langtímasamningar, jafnvel til fimm ára, þar sem fjárveitingar eru gerðar þannig að viðkomandi ríkisútvarp hefur nokkra vitneskju fram í tímann um hvernig fjárhagur þess mun þróast og það er þar með ekki háð einhverjum pólitískum sveiflum.

Ég vona að þetta hafi svarað því sem hv. þingmaður spurði um bréfið.

Hér var einnig rætt um dreifikerfið. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi um það. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta er mjög stórt mál. Boðað hefur verið að Ríkisútvarpið ætli að fara úr hliðrænni dreifingu yfir í stafræna dreifingu. Ríkisútvarpið hefur unnið mjög nákvæma greiningu á því sem til þarf og til stendur að fara í útboð á stafrænni dreifingu Ríkisútvarpsins af því að skilyrðið er að hún nái til landsins alls. En eins og hv. þingmaður benti réttilega á er það ekki tæknilegur möguleiki þannig að hluti af því verkefni gengur út á hvernig dreifing á sjónvarpsefni verður þá tryggð til þeirra sem ekki hafa aðgang að stafrænni dreifingu, sem verður þó líklega gert um gervihnetti, en það þyrftu þá ekki að vera nema einhver örfá prósent þjóðarinnar sem þar um ræðir. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að þarna takist vel til.

Hér hefur aðeins verið rætt um skipan stjórnar og hverjir sitji þar. Tekið er fram að kjörnir fulltrúar til Alþingis og sveitarstjórna geta ekki setið í stjórn Ríkisútvarpsins. Hins vegar læt ég ekkert eins og það geti ekki verið pólitískt fólk í stjórn Ríkisútvarpsins því að pólitískt fólk er úti um allt. Við megum heldur ekki gleyma okkur í því að tala eins og það sé endilega slæmt. Það sem er mikilvægt er að fólk sem þarna fer inn hafi góða faglega þekkingu á viðfangsefninu. Svo getur það haft sínar pólitísku skoðanir og mér finnst það bara mjög til fyrirmyndar að fólk hafi þær. En fyrst og fremst má það ekki vera eina ástæðan fyrir að fara inn í stjórnina.

Ég minni á, af því að hér var rætt um af hverju þarna væri ekki fulltrúi Blaðamannafélagsins, að ekki er gert ráð fyrir að starfsmenn annarra fjölmiðla sitji í stjórn Ríkisútvarpsins. Ég held að það eigi ekki almennt við um fjölmiðla að starfsmenn annarra fjölmiðla sitji þar. Hins vegar má ræða um það og auðvitað er ákveðin pólitík í því að leggja til að fulltrúi starfsmanna sitji í stjórn. Það er ákveðin lýðræðishugsun í því af minni hálfu að tryggja að starfsmenn eigi fulltrúa, sem ég tel góða, en mér finnst eðlilegt að nefndin fari yfir það því það geta auðvitað komið upp erfið mál, eins og hér var nefnt í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Það er mín skoðun að ef við viljum tryggja lýðræðislega stjórnarhætti sé mjög mikilvægt að starfsmenn hafi aðkomu að stjórnum.

Ég vil að lokum þakka fyrir ágæta umræðu. Ég vona að ég hafi svarað því sem hér var spurt um. Ég þykist þó vita að ég fái einhverjar viðbótarspurningar en þakka að öðru leyti fyrir góða umræðu.