140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

654. mál
[16:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira frá árinu 2007. Þetta er ekki stórt og mikið frumvarp en felur í sér breytingar á gildandi lögum um bókmenntasjóð og fleira sem voru sett á árinu 2007.

Tilefnið má rekja til þátttöku Íslands sem heiðursgests á bókasýningunni í Frankfurt haustið 2011. Í kjölfar þeirrar þátttöku, sem tókst afar vel, ákvað ég að leggja fram breytingar á þessu, fyrst og fremst til að festa í sessi ákveðið fyrirkomulag á sviði bókmennta sem hefur reynst vel á sviði annarra listgreina og tryggja eftirfylgni með þessu góða verkefni.

Forsagan er sú að haustið 2007 ákvað ríkisstjórnin að sækjast eftir því að Ísland yrði heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt. Ríkisstjórnin lagði 300 millj. kr. til verkefnisins á árunum 2007–2011. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu var falið forsvar málsins og var ákvörðuninni svo fylgt eftir og Ísland valið sem heiðursgestur fyrst Norðurlanda. Verkefnisstjórn var skipuð og verkefnisstjóri og ráðið starfslið og verkefnið hlaut nafnið Sögueyjan Ísland.

Um 200 íslenskar bækur og bækur um Ísland komu út á þýska málsvæðinu á árinu 2011 í samstarfi við hátt í 100 þarlend bókafélög. Í tengslum við sjálfa bókasýninguna voru einnig ýmsir íslenskir listviðburðir, svo sem myndlistarsýningar, tónleikar og danssýningar. Hér var tvímælalaust um að ræða stærstu menningarkynningu sem Ísland hefur staðið fyrir erlendis en auk stjórnvalda veittu ýmsir íslenskir og erlendir aðilar verkefninu stuðning. Þátttaka Íslands hlaut mikla athygli fjölmiðla og almennings á hinu þýska málsvæði sem og víðar í Evrópu.

Það hefur verið reynsla fyrri heiðursgesta að heiðursárið hefur aukið útbreiðslu bókmennta viðkomandi lands í heiminum varanlega, þ.e. þetta er ekki eingöngu tímabundin athygli sem þarna kemur inn heldur varanlegur árangur. En það hangir á því að verkefninu sé fylgt dyggilega eftir í kjölfarið. Ég tel því nauðsynlegt að skýra og efla kynningu á íslenskum bókmenntum sem hefur verið á könnu bókmenntasjóðs. Í frumvarpinu er lagt til að skrifstofa bókmenntasjóðs beri framvegis heitið Miðstöð íslenskra bókmennta en bókmenntasjóður starfi á vegum miðstöðvarinnar og stjórn miðstöðvarinnar taki ákvarðanir um úthlutun úr sjóðnum.

Virðulegi forseti. Þær helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru að lagt er til að heiti laganna verði lög um stuðning við íslenskar bókmenntir en ekki lög um bókmenntasjóð og fleira, enda hefur mér alltaf fundist þetta „og fleira“ hálfankannalegt í heiti á lögum. Heiti II. kafla gildandi laga verði framvegis Miðstöð íslenskra bókmennta og bókmenntasjóður og hlutverk miðstöðvarinnar verði að styrkja útgáfu íslenskra skáldverka og vandaðra rita, svo og útgáfu erlendra bókmennta á íslenskri tungu rétt eins og bókmenntasjóður hefur gert þannig að það er ekki breyting. Hins vegar verði styrkir til þýðinga á íslenskum bókmenntum á erlendri tungu greiddir af framlagi til miðstöðvarinnar þar sem slíkt er mikilvægur þáttur í kynningu og útbreiðslu á íslenskum bókmenntum erlendis. Með þessari lagabreytingu er ekki verið að draga úr stuðningi við íslenska bókaútgáfu sem áfram yrði styrkt af sérstökum bókmenntasjóði.

Annað mikilvægt hlutverk miðstöðvarinnar er að kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og stuðla að útbreiðslu þeirra. Í því felst meðal annars að efla samskipti við erlenda aðila á sviði bókmennta og bókaútgáfu. Þetta er það hlutverk sem ætlunin er að efla því að við höfum haft bókmenntasjóð starfandi sem allir eru sammála um að gengur vel þótt hann mætti vera stærri og öflugri, en þetta er það hlutverk sem við erum sérstaklega að horfa til að efla.

Þá er miðstöðinni einnig ætlað að efla bókmenningu á Íslandi sem er ekki vanþörf á heldur. Hlutverk miðstöðvarinnar yrði að sumu leyti hliðstætt hlutverki Kvikmyndamiðstöðvar Íslands en þó er ekki gengið svo langt að setja á laggirnar sérstaka ríkisstofnun heldur er í praxís byggt á því fyrirkomulagi sem við eigum núna. Stjórn bókmenntasjóðs verður stjórn miðstöðvarinnar, skipan stjórnar verður óbreytt frá því sem nú er og lagt er til að stjórninni verði heimilað að leita umsagnar fagaðila við mat á umsóknum. Eftir sem áður er það stjórnin sem tekur ákvörðunina um úthlutun úr sjóðnum og ákvarðanir hennar eru endanlegar á þessu stjórnsýslustigi.

Virðulegi forseti. Ég bind vonir við að með samþykkt frumvarpsins skapist sterkari lagastoð fyrir kynningu á íslenskum bókmenntum til að fylgja eftir góðum árangri á bókamessunni í Frankfurt haustið 2011. Með breytingu á skrifstofu bókmenntasjóðs er gert ráð fyrir að hún verði betur í stakk búin til að sinna kynningarhlutverkinu en það er þó háð fjárveitingu. Í því sambandi vil ég vekja athygli á að í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið kemur fram að lögfesting þess muni ekki leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð en í kostnaðarmati okkar í mennta- og menningarmálaráðuneyti kemur fram að við teljum mikilvægt að það framlag sem tímabundið var veitt til Frankfurtar-verkefnisins haldist að hluta til, og helst að öllu leyti, inni hjá þessari miðstöð þannig að hún hafi þá úr þeim fjármunum að spila til að fylgja eftir þessum verkefnum. Mér finnst mjög mikilvægt að við drögum ekki saman fjármagn í bókmenntasjóðnum sem við þegar eigum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa frekari orð hér um málið en vænti þess að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.