140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

654. mál
[16:20]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira. Það er eiginlega verið að efla þennan bókmenntasjóð sem varð til með lögum árið 2007 þegar þrír sjóðir sem voru fyrir voru settir saman í einn og hlutverk sjóðsins aukið. Nú er kannski verið að styrkja það sem tilheyrir ekki beinlínis úthlutun sjóðsins heldur öðru starfi sem er aðallega kynningarstarf, bæði er það hlutverk miðstöðvarinnar að kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og reyna með öllum hætti að efla bókmenningu og stuðla að útbreiðslu bóka, sérstaklega íslenskra.

Mér finnst margt mjög jákvætt í þessu. Ég verð reyndar að játa að ég veit ekki hvernig stjórnin er skipuð núna en ég sé að hér er ekki heimilt að skipa sama aðalmann í stjórn miðstöðvarinnar lengur en tvö samfelld starfstímabil. Það finnst mér mjög gott vegna þess að ég held að í öllum svona úthlutunum — þó að þær séu faglega unnar — sé þetta alltaf spurning um smekk og áhuga þeirra sem úthluta og ég held að það sé mjög hollt að skipta fólki reglulega út.

Eins og ráðherra kom fram með í framsöguræðu sinni þá er aldeilis lag núna að kynna íslenskar bókmenntir. Við erum nýbúin að vera heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt, sem er svolítið aðal í bókabransanum, og vakti þátttaka Íslands gríðarlega athygli. Ég held að árangurinn af þessu — sem kostaði vissulega mikið þótt það hafi þegar upp er staðið kannski ekki kostað eins mikið og upphaflega var gert ráð fyrir því að heilt efnahagskerfi hrundi í millitíðinni, milli þess sem ákveðið var að sækja um og verkefnið fór fram.

Þetta var verkefni sem var gríðarlega vel unnið. Ísland og íslenskar bækur vöktu ofboðslega athygli og íslenskir höfundar fengu byr undir báða vængi. Auk þess held ég að íslenskar bækur og íslenskar kvikmyndir séu einhver besta landkynning sem við getum fengið þannig að þetta hjálpar öðrum greinum eins og ferðaiðnaðinum gífurlega.

Það að íslenskir höfundar fái bækur sínar þýddar í útlöndum er eiginlega forsenda þess, miðað við okkar litla málsvæði, að hér þrífist atvinnuhöfundar sem þurfa ekki að lifa á ritlaunum frá hinu opinbera og þetta höfum við sem betur fer verið að sjá gerast. Þess má geta að Einar Már Guðmundsson var alla vega um tíma mest seldi þýddi rithöfundur í Danmörku. Arnaldi Indriðasyni hefur gengið gríðarlega vel í Þýskalandi og fleiri Íslendingar hafa náð ótrúlegum árangri á heimsvísu. Það eru bara nokkrar vikur síðan Hallgrímur Helgason átti bók á Topp-10 listanum í Amazon. Þetta gleður mann. Nú þarf ég bara að hemja mig svo að ég detti ekki í þjóðrembingsútrásargírinn (Gripið fram í.) en þetta er útrás sem hefur staðið ansi lengi og ber íslenskri bókaútgáfu afskaplega fagurt vitni. Það er ekki bara að íslenskir höfundar séu góðir heldur er gríðarlega gott faglegt starf unnið hjá bókaútgáfum við ritstjórn og allt utanumhald. Íslenskar bókaútgáfur og bókaútgefendur eru gríðarlega vel tengdir erlendis og þetta hefur allt hjálpast að. Stundum dettur mér í hug að íslenskur bókamarkaður sé eins og áttunda undur veraldar. Eiginlega skilur enginn hvernig hægt er að gefa út svona rosalega margar góðar bækur á svona litlu málsvæði. En það er kannski af því að við erum með svo lítið málsvæði sem okkur þykir vænt um tungumálið okkar og viljum virkilega vinna með það.

Það er margt spennandi að gerast og um að gera að nota þann byr sem sýningin í Frankfurt gefur okkur. Ég held að peningar sem við ætlum að verja í þetta verkefni og höfum gert hingað til séu gríðarlega góð fjárfesting. Mig langar samt aðeins að tala um peningana því að ef ég man þetta rétt hefur bókmenntasjóður fengið 40–50 millj. kr. á ári, 45 millj. kr. held ég síðast. Á 138. löggjafarþingi var ég með fyrirspurn um safnliðina svokölluðu, hvaða útgáfustyrki Alþingi, ekki hinir faglegu bókmenntasjóðir, hefði verið að veita. Á þessum tíma, þessum tíu árum, voru þetta 204 millj. kr. og meira að segja ríflega það og mest var þetta á árunum 2007, 2008 og 2009, hæst árið 2008, þá veitti Alþingi 55,6 millj. kr. í styrki til útgáfumála til ýmissa verkefna, eflaust margra mjög góðra. En fyrirspurnin sýndi að í raun væri útilokað að vita hvort sum þessara verkefna væru góð eða slæm vegna þess að verkin komu ekki út og það var engin eftirfylgni með þessu.

Styrkirnir hafa auðvitað minnkað og safnliðina erum við búin að afnema. Árið 2009 voru þetta 41,6 millj. kr. þannig sum árin var það hærra en við vorum að veita til bókmenntasjóðs. Árið 2010 áttu þetta samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að vera 20 millj. kr. en þá var þessi fyrirspurn komin fram og þá héldu menn að sér höndum.

Reyndar gerði þáverandi menntamálanefnd tillögur um 2 millj. kr. eða svo en fjárlaganefnd bætti í þannig að úr urðu 7,5 millj. kr. og var miðað við þá tölu þegar safnliðirnir voru afnumdir og byggt á því viðbótarframlag í þessa faglegu sjóði en hefði í raun átt að vera 20 millj. kr. ef ég hefði ekki verið að skipta mér af með þessari góðu fyrirspurn. Þetta hefur mér alltaf fundist frekar leiðinlegt, að hafa kannski óbeint og algerlega óviljandi reyndar komið þessum málum í betri farveg en ef til vill haft 10 millj. kr. af bókmenntasjóði. Því óska ég eftir því, ef einhver er að hlusta, að menn reyni að átta sig á hvað þetta er gríðarlega góð fjárfesting og að þetta eru peningar sem skila sér margfalt til baka til samfélagsins.