140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

framhaldsskólar.

715. mál
[16:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra er þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla áþekkt þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um grunnskóla. Hér er verið að ræða rétt nemenda, ábyrgð nemenda og svo ákveðinn skólabrag.

Mig langar fyrst að gera rétt nemenda að umtalsefni. Ég fagna því að í 1. gr. um rétt nemenda sé komið svokallað vinnuverndarsjónarmið þannig að við getum hugsanlega komið þeim skilaboðum áleiðis, ekki bara til þeirra sem eru í grunnskóla heldur og til þeirra sem eru í framhaldsskóla, að nám er vinna og því ber að sinna. Þegar horft er til þess að vinnuverndarsjónarmið eru komin þar inn er líka hægt að horfa til þess að álagi, jafnt á nemendur sem aðra, sé stillt í hóf þannig að nemendur geti innan hefðbundins vinnutíma dag hvern lokið vinnu sinni í skólanum sem og annarri þeirri vinnu sem inna þarf af hendi eftir að hefðbundinni skólasókn lýkur. Það er af hinu góða, virðulegur forseti. Í 1. gr. er talað um rétt nemenda og að nemendur eigi nú með þessum breytingum á lögum rétt á því að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og ýmsar aðrar ákvarðanir er að þeim snúa, það sé réttur þeirra. Þess vegna varpa ég eiginlega þeirri spurningu til hæstv. ráðherra af hverju 2. gr. heiti ekki skyldur og ábyrgð nemenda. Ef nemendur öðlast réttindi koma oftar en ekki skyldur á móti.

Um skyldur nemandans er ekki rætt heldur er rætt um ábyrgð hans og í mínum huga er það ekki alveg það sama. Að bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum er jú ákveðin skylda lögð á herðar nemandans, en ég held að það yrði sterkara ef kveðið væri á um réttinn í 1. gr. og ábyrgð og skyldur nemenda í 2. gr. og mun að sjálfsögðu, virðulegur forseti, ræða það í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég held að það sé af hinu góða að setja inn í 2. gr., eins og þar stendur, hverjar eigi að vera skyldur og aftur ábyrgð nemanda á eigin námi, framkomu og samskiptum við jafnt skólafélaga sem starfsmenn skólanna. Líka er komið hér inn að verði hegðun nemanda ábótavant á einhvern hátt þurfi að leita orsaka þess sem og að skólameistari geti brugðist við en þurfi jafnframt að gæta þess að sjálfsögðu ef nemandinn er undir 18 ára aldri að upplýsa foreldra og síðan, ef kemur til alvarlegra aga- eða hegðunarbrota, þurfi skólameistari að gera nemandanum ljóst hvort honum verði vikið úr skóla tímabundið til að hann geti íhugað og endurskoðað framkomu sína. Jafnframt er upplýsingaskylda skólameistara að leiðbeina nemanda um innkomu hans aftur í skólann.

Ég held að það að binda þetta í lög með þessum hætti sé af hinu góða. Ég held að það styrki stöðu nemandans, styrki rétt nemandans gagnvart skólaumhverfinu og 2. gr. styrkir nemandann í því að bera ábyrgð og sinna skyldum sínum í námi og samskiptum og gæta að framkomu sinni við starfsmenn skólans og skólafélaga.

Líka koma inn breytingar á 33. gr. b, sem er skólabragur. Þær eru til samræmis við það sem gert var í grunnskólalögum. Ég held að það sé líka af hinu góða að binda í lög að það sé jafnt nemenda, starfsmanna skólans og annarra sem innan skólasamfélagsins eru með einum eða öðrum hætti að leggja sitt af mörkum til að efla og byggja upp jákvæðan skólabrag. Þetta er meðal annars gert til þess að hægt sé að bregðast á margan hátt fyrr við ýmiss konar eineltismálum sem upp kunna að koma.

Ég fagna því sem ég heyrði hæstv. ráðherra ræða um áðan, ef ég hef lesið rétt í það hefur þegar verið skipað fagráð fyrir grunnskólann og ætlar ráðherra sér að kanna hvort þetta sama fagráð geti ekki sinnt jafnt málum sem upp koma í framhaldsskóla líka. Ég tel að það sé af hinu góða vegna þess að flestir þeir nemendur sem eru í grunnskóla og hafa hugsanlega lent þar í einelti eiga væntanlega leið upp í framhaldsskóla og þá er hægt að halda utan um og fylgjast með hvort þeir hinir sömu lendi í sams konar aðstæðum í framhaldsskólanum og þeir lentu í í grunnskóla. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að íhuga vandlega það sem hún nefndi, að þetta fagráð verði það eina á báðum skólastigum og ekki þurfi fleiri fagráð í ráðuneytinu til að sinna slíkum málum.

Þessar breytingar á lögum jafnt um grunnskóla sem framhaldsskóla um ábyrgð, skyldur og réttindi nemenda sem og skólabrag verða vonandi til þess að skólinn verði virtur sem vinnustaður og að fólk hagi sér þokkalega innan hans og troði ekki öðrum um tær.

Að öðru leyti, virðulegur forseti, er í sjálfu sér ekki fleira um þessa breytingu á lögum um framhaldsskóla að segja. Nema kannski viðbótarákvæðið sem ég ætla ekki að gera athugasemdir við í 3. gr., þ.e. ákvæði til bráðabirgða. Það var samþykkt á þingi að heimila framhaldsskólum að leggja efnisgjald á nemendur í verklegu námi ef talið væri að þeir hefðu ávinning eða not af því sem skólinn kallaði eftir efnisgjaldi fyrir. Ég ætla ekki að gera athugasemd við að því verði framlengt til skólaársins 2012–2013.

Að lokum, virðulegur forseti, þar sem við erum að setja slíkar breytingar sem varða nemendur allt að 18 ára aldri og í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu og þess að nemendur, hvort heldur er í grunnskóla eða framhaldsskóla, hafa ekki jafngreiðan aðgang að atvinnu í dag og þeir höfðu á árum áður held ég að það sé tímabært að við endurskoðum enn frekar með hvaða hætti við getum byggt meiri samfellu í grunn- og framhaldsskóla og stytt þetta nám þannig að nemendur útskrifist fyrr til hagsbóta fyrir þá sjálfa og samfélagið allt.

Þá vil ég nefna þá hugmynd mína, sem ég hef rætt hér áður og hef í hyggju að flytja þingsályktunartillögu um, að fela hæstv. ráðherra að færa framhaldsskólann til sveitarfélaganna þannig að til verði samræmd heildarstefna fyrir nemendur frá 6–18 ára. Ég tel að með því megi gera tvennt: Nemendur á Íslandi verða þá komnir á svipaðan stað og nemendur annars staðar í Evrópu þegar þeir ljúka ákveðnu prófi til að fara í fagháskóla eða aðra háskóla. Það sparar ekki bara peninga heldur verður meiri samfella í námi nemendanna sem má þá þjappa betur saman. Og þetta verður á einni hendi sem auðveldar allt.