140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[16:51]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á gjaldeyrislögum, máli nr. 31 á þskj. 1169. Meginmarkmið þessa frumvarps er að losa um takmarkanir á fjármagnshreyfingum milli landa en reglur um gjaldeyrismál sem settar voru í kjölfar hrunsins höfðu það að markmiði að takmarka tímabundið fjármagnshreyfingar á milli landa, sem valdið gæti óstöðugleika í gjaldeyrismálum, á meðan unnið væri að endurreisn íslensks efnahagslífs og fjármálakerfis. Gjaldeyrisviðskipti er tengdust almennum viðskiptum með vöru og þjónustu skyldu hins vegar vera frjáls, nema með örfáum undantekningum í tilvikum þar sem nauðsynlegt er að takmarka viðskipti í því skyni að stemma stigu við sniðgöngu.

Ýmis fjármálaviðskipti á milli landa eru hins vegar ekki þess eðlis eða svo stór í sniðum að líklegt sé að þau valdi óstöðugleika, auk þess sem höftum á fjármagnshreyfingar fylgir ýmis kostnaður og óþægindi fyrir borgarana sem ástæða er til að lágmarka eins og kostur er. Því geta verið rök fyrir því að heimila fjármagnshreyfingar af ákveðnu tagi, annaðhvort með almennri heimild eða með undanþágum. Við veitingu undanþága þarf að vega og meta hagsmuni viðkomandi aðila annars vegar og þjóðhagsleg áhrif undanþágunnar hins vegar, bæði af hverri undanþágu fyrir sig og því fordæmi sem hún gefur. Slík undanþáguferli geta hins vegar verið nokkuð tafsöm og fela óhjákvæmilega í sér umstang og kostnað.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið og Seðlabankinn telja eðlilegt að endurmeta reglulega þörfina fyrir takmarkanir á einstökum tegundum fjármagnshreyfinga í ljósi reynslunnar. Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru árangur slíks endurmats en þær eru einnig í góðu samræmi við samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu, sem gert var í tengslum við lögfestingu reglna um gjaldeyrismál vorið 2011, þess efnis að leitað skyldi leiða til þess að draga úr óþægindum er fylgja framkvæmd gjaldeyrishafta á meðan þau eru við lýði.

Í frumvarpinu er meðal annars tekið mið af veitingu undanþága síðastliðin þrjú ár, en undanþágur gefa vísbendingu um hvaða ákvæði þrengi helst að athafnafrelsi einstaklinga og fyrirtækja að ósekju. Jafnframt hefur verið litið til þeirrar reynslu sem eftirlitið hefur af sniðgöngu er tengist tilteknum ákvæðum laganna.

Þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu má skipta í fimm flokka. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar til rýmkunar á ýmsum ákvæðum er varða heimildir til gjaldeyrisviðskipta. Sem dæmi má nefna að fjárhæðir vegna framfærslu erlendra aðila erlendis eru hækkaðar, en fjöldi beiðna vegna undanþágu frá því ákvæði hefur verið mikill og því ljóst að framfærsluheimildir í núgildandi lögum eru fulllágar.

Þá eru heimildir til endurfjárfestingar rýmkaðar. Frestur til endurfjárfestinga í núgildandi lögum er lengdur úr tveimur vikum í sex mánuði en rökin fyrir rýmkuninni eru einkum þau að gefa aðilum, sem heimild hafa til endurfjárfestingar, lengri tíma til að ákveða hvort þeir nýti sér þá heimild, en ekki síður að gefa þeim tækifæri á að safna saman endurfjárfestanlegum fjármunum í skilningi ákvæðisins í allt að sex mánuði áður en endurfjárfest er.

Heimild til endurfjárfestingar samkvæmt lögum um gjaldeyrismál hefur eingöngu verið bundin við fjármuni sem losna við sölu eða uppgreiðslu eða sem falla til vegna arð- eða vaxtagreiðslna af fjármálagerningum sem aðili hefur fjárfest í fyrir 28. nóvember 2008. Í frumvarpinu er lagt til að heimild til endurfjárfestingar verði rýmkuð og að aðilum, sem fjárfest hafa með erlendum gjaldeyri í fasteign sem staðsett er erlendis, verði veitt heimild til að endurfjárfesta söluverðmæti eða tjónabætur af slíkri fasteign í annarri fasteign innan sex mánaða. Við rýmkun takmarkana um endurfjárfestingu þykir nú eðlilegt að láta sömu reglur gilda um fasteignir og um framseljanlega fjármálagerninga útgefna í erlendum gjaldeyri, enda sé í báðum tilvikum um að ræða eignir sem fjárfest var í fyrir 28. nóvember 2008.

Jafnframt eru lagðar til breytingar sem veita heimild til endurfjárfestingar á verðmæti sem til fellur vegna sölu eða greiðslu tjónabóta vegna vélknúins ökutækis sem staðsett er erlendis.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að losað verði um takmarkanir innlendra aðila til að taka lán hjá erlendum aðilum. Í ljósi þess að innlendum aðilum hefur frá hruni reynst erfitt að sækja sér fjármögnun á erlendum lánsfjármarkaði er talið mikilvægt að opna leið fyrir þá innlendu aðila sem geta fengið lán hjá erlendum aðilum til að taka slík lán. Ekki er lagt til að neinar fjárhæðartakmarkanir verði á þeim heimildum innlendra aðila til að taka lán hjá erlendum aðila enda fela slíkar lántökur í sér innflæði á erlendum gjaldeyri, en þó er gert að skilyrði að slíkar lántökur séu til að minnsta kosti tveggja ára.

Þá er í frumvarpinu að finna auknar heimildir til gjaldeyrisviðskipta í tengslum við atvinnustarfsemi. Er lagt til að innlendum aðilum verði heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi vegna fjármagnshreyfinga á milli landa, vegna fjárfestinga í peningakröfum í erlendum gjaldeyri og öðrum sambærilegum kröfuréttindum, vegna fasteignaviðskipta erlendis í tengslum við búferlaflutninga aðila og vegna fjármagnshreyfinga vegna fjárfestinga í öðrum eignum í erlendum gjaldeyri, þar með talið hrávöru, farartækjum og vinnuvélum. Núgildandi lög gera ráð fyrir að einungis fjármagnshreyfingin sé heimil, sem leiðir til þess að aðilar sem uppfylla skilyrði 13. gr. f hafa þurft að eiga erlendan gjaldeyri til þess að nýta sér þær undanþágur sem þar er kveðið á um.

Þá verður innlendum aðilum heimilt að kaupa farartæki til eigin nota innan lands. Er heimildin takmörkuð við eitt farartæki á almanaksári fyrir allt að 10 millj. kr. Til að koma í veg fyrir misnotkun eru viðskiptin jafnframt háð staðfestingu Seðlabankans.

Í öðru lagi er lagt til að Seðlabankinn fái heimildir til að setja reglur um undanþágur frá ákveðnum takmörkunum laganna. Þannig verði Seðlabankanum mögulegt að losa um ákveðnar takmarkanir eins og aðstæður leyfa hverju sinni, en einnig að bregðast við með skjótum hætti komi í ljós að þær undanþágur opni á sniðgöngumöguleika eða misnotkun.

Í þriðja lagi er lagt til að eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum vegna greiðslna vaxta, verðbóta, arðs og samningsbundinna afborgana verði hert á þá leið að gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa vegna greiðslna samkvæmt ákvæði þessu, skulu hafa hlotið staðfestingu Seðlabanka Íslands áður en þær eru framkvæmdar. Ljóst er að tilkynningum til Seðlabanka Íslands vegna gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga í erlendum gjaldeyri vegna vaxta- og arðgreiðslna hefur verið ábótavant þrátt fyrir tilmæli þar um. Þá hafa ákveðnir möguleikar verið til misnotkunar og sniðgöngu sem mikilvægt er að stemma stigu við. Þykir því nauðsynlegt að skilyrða slík viðskipti við staðfestingu Seðlabanka Íslands.

Í fjórða lagi er almenn heimild Seðlabankans til upplýsingaöflunar í þágu eftirlits rýmkuð til samræmis við heimild bankans til að afla upplýsinga í þágu rannsókna. Mikilvægt er að heimildir Seðlabankans vegna lögbundins eftirlits bankans með lögunum verði ekki eingöngu bundnar við upplýsingar er lúta að gjaldeyrisviðskiptum. Mikilvægt er fyrir Seðlabankann að geta óskað eftir annars konar upplýsingum til að bankanum sé unnt að framkvæma hið lögbundna eftirlit með fullnægjandi hætti. Með breytingunni verða heimildir Seðlabankans til öflunar upplýsinga vegna eftirlits þær sömu og er varða rannsóknir vegna meintra brota á ákvæðum laganna.

Í fimmta lagi er í frumvarpinu að finna breytingar er varða sektarákvæði laganna, en lagt er til að fjárhæðarmörk vegna stjórnvaldssekta sem Seðlabanka Íslands er heimilt að leggja á vegna brota á ákvæðum laga eða reglum settum á grundvelli þeirra verði hækkuð. Felur það í sér að hámarkssektir á einstaklinga hækka úr 20 í 65 millj. kr. og á fyrirtæki úr 75 í 250 millj. kr. Reynsla við rannsókn brota á lögum um gjaldeyrismál hefur leitt í ljós að fjárhæðir eru oft á tíðum það háar, með tilliti til sektarheimilda laga um gjaldeyrismál, að Seðlabankinn á ekki annan kost en að skilgreina brot sem meiri háttar og kæra þau til lögreglu, jafnvel þó að þau séu í eðli sínu ekki meiri háttar brot. Slík staða vinnur gegn þeim tilgangi laganna um að meiri háttar brot fari til lögreglu en Seðlabankinn ljúki minni háttar málum með beitingu stjórnvaldssekta. Slík staða leiðir einnig til þess að málafjöldi og álag hjá sérstökum saksóknara verður meira en eðlilegt er með tilliti til brotanna. Hækkun sektarheimilda leiðir því til þess að fleiri málum vegna brota á lögunum verður lokið með álagningu stjórnvaldssekta.

Þá er Seðlabankanum einnig fengin heimild til að beita stjórnvaldssektum í þeim tilfellum sem brotið er gegn skilyrðum sem sett eru fyrir veitingu undanþágu frá takmörkunum laganna.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar og veit að það fer þar í góðar hendur, enda hefur nefndin unnið mikið að þessu máli og átt stóran þátt í að móta þá löggjöf og þá framkvæmd sem nú er unnið eftir. Þegar lagaákvæði um gjaldeyrisviðskipti voru gerð mun ítarlegri en þau áður voru og meira fært inn í löggjöfina sjálfa en minna byggt á reglugerð lá auðvitað fyrir að til þess gæti komið að oftar þyrfti í framhaldinu að breyta lögunum. Um það var hv. nefnd sér vel meðvituð og þar af leiðandi reiðubúin fyrir sitt leyti að takast á við að framkvæmdin byggði á þessum grunni. Ég held reyndar að ekki þurfi að deila um að það er að sjálfsögðu heppilegra að stuðst sé við lagaákvæði í ríkari mæli en reglugerðarákvæði þegar mikilvæg mál af þessu tagi eiga í hlut.

Að uppistöðu til er þetta frumvarp til rýmkunar ýmissa ákvæða sem varða einstaklinga og fyrirtæki miklu í daglegu lífi eða daglegum rekstri og ættu menn því að taka því vel að slíkar breytingar verði gerðar á framkvæmd laga um gjaldeyrismál eða framkvæmd gjaldeyrishaftanna, þannig að eilítið skárra verði að búa við þau svo lengi sem það ástand varir.