140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[17:03]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er fullkomlega eðlileg spurning. Þau rök sem hafa verið færð fram við mig eru að það þurfi stundum að fá upplýsingar sem tengjast gjaldeyrisyfirfærslunni eða gjaldeyrisviðskiptunum sjálfum, ekki sé alltaf nóg að hafa bara rétt til að óska upplýsinga um fjárhæðir og skjöl sem tengjast sjálfum gjaldeyrisskiptunum eða gjaldeyrisyfirfærslunni heldur gagna sem sýna hvaða ástæður liggja að baki viðskiptunum sem eru að fara fram, hvers eðlis þau eru. Að sjálfsögðu er ekki ætlunin að Seðlabankinn fari með þessu út fyrir það sem tengist viðkomandi gjaldeyrisviðskiptum, heldur að það geti þurft að fylgja með viðbótargögn sem tengist í sjálfu sér eðli þess máls sem í hlut á og verið er að biðja um upplýsingar um, svo sem eins og nánari upplýsingar um andlag viðskiptanna og hvaða varningur er á ferð á bak við yfirfærslurnar eða hvert tilefnið er.

Annars skal ég játa að ég þekki ekki nákvæmlega hvar menn hafa hugsað sér að draga mörkin þarna og er upplagt viðfangsefni fyrir hv. þingnefnd að fá betri skýringar á því. En þetta eru þau rök sem voru færð fram fyrir mig, að til þess að Seðlabankinn gæti samhengisins vegna greint í vissum tilvikum hvort rök stæðu fyrir viðkomandi viðskiptum eða veitingu viðkomandi undanþága gætu stundum þurft að fylgja ítarlegri gögn en þau ein sem sneru bara að gjaldeyrisyfirfærslunni eða gjaldeyrisskiptunum sjálfum.