140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[17:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Mörg ákvæði þessa frumvarps eru þess eðlis að maður hlýtur auðvitað að fagna þeim. Þarna er um að ræða rýmkanir á ýmsum heimildum til gjaldeyrisyfirfærslna. Í sjálfu sér er ekki annað að gera en að lýsa yfir ánægju með að stigin séu þau skref sem er að finna í þá átt. Ég get þó ekki annað en lýst yfir nokkrum vonbrigðum með að við séum á þeim stað að vera að ræða málin á þessum forsendum. Ég verð að segja að þegar við þingmenn vorum í þeim sporum að samþykkja upptöku gjaldeyrishafta í nóvember 2008 vonaðist maður auðvitað til að unnt yrði að vinna að afnámi haftanna miklu fyrr en raunin hefur orðið. Þetta hefur eiginlega verið samfelld vonbrigðasaga, get ég sagt. Ég viðurkenni að þegar ég stóð að því að samþykkja upptöku gjaldeyrishaftanna í nóvember 2008 óttaðist ég að minnsta kosti að það sem fram kom frá ýmsum um að hér gætum við verið að stíga skref sem erfitt yrði að bakka út úr fyrr en eftir mörg ár kynni að vera satt. Ég vonaðist hins vegar til þess að aðstæður yrðu þannig að unnt væri að vinda ofan af höftunum fyrr en raunin hefur verið.

Ég ætla ekki að fara almennt yfir ókosti gjaldeyrishaftanna og hvaða áhrif þau hafa á efnahagslífið, það hafa aðrir hv. þingmenn gert í þessari umræðu. Ég segi eins og aðrir að ég tel að við ættum í raun og veru að vera að vinna að miklu hraðari og ákveðnari skrefum í þá átt að afnema höftin en gert hefur verið og tel að við hljótum að setja það mál í töluverðan forgang hjá okkur, bæði inni á þingi og á vettvangi stjórnvalda, ríkisstjórnar og Seðlabanka. Ég met það svo að því miður séu málin á frekar hægri ferð. Mér er kunnugt um allar þær skiptu skoðanir um möguleika í því sambandi, en ég tel þó að of hægur gangur sé í þessu. Ég er þeirrar skoðunar að möguleikarnir til að afnema gjaldeyrishöftin hraðar en gert hefur verið ráð fyrir séu fyrir hendi. Það er auðvitað ekki einfalt eða létt verk í sjálfu sér en ég held að það sé ekki ómögulegt.

Ég vildi líka í þessari umræðu taka undir það sem fram hefur komið hjá sumum hv. þingmönnum, og hafna þeirri nauðhyggju að afnám gjaldeyrishaftanna sé röklega bundið því að við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evruna. Ég hafna því sjónarmiði. Ég held að því miður, eins og nefnt hefur verið í þessari umræðu, sé annar ríkisstjórnarflokkurinn einhvern veginn búinn að binda sig við þá hugmynd að gjaldeyrishöftum verði ekki aflétt nema við verðum aðilar að Evrópusambandinu og eftir því sem tímar líða aðilar að evrusvæðinu. Ég held að það sé fullkomlega rangur skilningur og tel að við eigum alls ekki að láta slík sjónarmið ráða stefnu okkar. Reyndar er það svo að yfirlýst stefna stjórnvalda og Seðlabanka, að minnsta kosti sú sem kynnt hefur verið opinberlega, gerir ekki ráð fyrir tengingu við upptöku evrunnar í sambandi við afnám gjaldeyrishafta.

Hins vegar tala afar margir úr hópi talsmanna ríkisstjórnarinnar þannig að óhjákvæmilegt sé að taka upp evruna til að afnema gjaldeyrishöftin og það verði ekki unnt fyrr en komið er að þeim tímapunkti. Ég held að með því að þrengja sýn sína með slíkum hætti séu hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sem þannig tala að þrengja í raun eigin möguleika í þeim efnum. Ég held, hæstv. forseti, að það sé síst til bóta fyrir umræðuna að tengja hana Evrópusambandinu og upptöku evru eftir einhver ár. Ég vísa bara til þess sem kom fram í umræðum um utanríkismál síðast í gær, en svo virðist vera sem utanríkisráðherra gangi að minnsta kosti út frá því að ekki sé unnt að komast út úr gjaldeyrishaftafyrirkomulaginu nema með því að taka upp evru.

Eins og fleiri hv. þingmenn vildi ég kannski nota tækifærið til að biðja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að fara nánar yfir sýn sína í þessum efnum. Í því sem komið hefur á pappír frá stjórnvöldum og Seðlabanka er gert ráð fyrir ákveðinni áætlun um afnám gjaldeyrishafta, en ansi margir talsmenn ríkisstjórnarinnar virðast gera ráð fyrir einhverju öðru plani, þ.e. plani sem hangir á Evrópusambandsaðild og upptöku evrunnar. Án þess að ég vilji lengja þessa umræðu úr hófi fram finnst mér alveg ástæða til að hæstv. fjármálaráðherra noti þetta tækifæri, þegar við erum að fjalla um gjaldeyrishöftin, til að fara eilítið nánar út í framtíðarsýn sína í þessu efni.

Þá vildi ég líka inna eftir því hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að hér sé um að ræða skref í átt til frekara afnáms, þ.e. hvort hann sjái fyrir sér frekari útvíkkanir eða hvort hér sé um að ræða einhvers konar lokamarkmið. Nú kann að vera að aðstæður geri að verkum að ráðherra geti ekki svarað því alveg og ég virði það, en ef ráðherra getur upplýst eitthvað um það bið ég hann að gera það.

Hæstv. forseti. Ég held að hv. efnahags- og viðskiptanefnd eigi auðvitað að fara vel yfir þetta frumvarp. Ég er þeirrar skoðunar að skoða beri með jákvæðum huga þær tillögur sem lúta að því að rýmka til með gjaldeyrishöftin, en ég bið hins vegar hv. nefnd að fara með gagnrýnum huga yfir þá þætti sem lúta að hertu eftirliti og hertum viðurlögum, sem ég hygg að geti verkað í öfuga átt.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál lengra að sinni, en þakka fyrir þessa umræðu og segi aftur að ég væri þakklátur ef hæstv. ráðherra gæti í lokaræðu sinni komið aðeins inn á einhverja af þeim þáttum sem ég beindi til hans.