140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[18:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um gjaldeyrismál þar sem um er að ræða rýmkun heimilda, aukið eftirlit, hækkun sekta o.s.frv. Það er skemmst frá því að segja að allt sem er rýmkun á heimildum hljómar vel, en ekki er nú eingöngu um það að ræða, því hér á líka að herða viðurlög og sömuleiðis hækka sektir. Til dæmis hækka hámarkssektir á einstaklinga úr 20 milljónum í 65 milljónir og fyrirtæki úr 75 milljónum í 250 milljónir. Einnig er tekið fram að þrátt fyrir að ríkur vilji hafi verið fyrir því að heimila sérstaklega beina erlenda fjárfestingu treystu menn sér ekki í þá vegferð.

Sömuleiðis er lagt til í þessu frumvarpi að einungis sé heimilt að kaupa eitt farartæki á almanaksári fyrir allt að jafnvirði 10 millj. kr. Til að koma í veg fyrir misnotkun eru viðskiptin háð staðfestingu Seðlabankans. Þetta kannski lýsir þeirri stöðu sem við erum í varðandi gjaldeyrishömlurnar og höftin. Það virðist vera nokkuð ljóst að miðað við þá stefnu sem verið hefur og áframhaldandi stefnumörkun erum við ekki að fara að losa um þau höft á næstunni. Því miður hafa þær áætlanir sem lagt var upp með ekki gengið eftir og ekkert bendir til þess að þær muni gera það.

Við horfum auðvitað á það, virðulegi forseti, að gjaldeyrisvaraforðasjóðurinn er orðinn neikvæður um 190 milljarða. Ýmislegt bendir til þess að núgildandi stefna sé dýr, sökum mikilla lántakna varðandi gjaldeyrisvaraforðann, en á sama tíma skilar hún því ekki að við sjáum til lands með að losa um gjaldeyrishöftin.

Þess vegna ætti þetta í rauninni að vera stærsta almenna stóra málið sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um núna, hvernig við getum losað okkur úr þessum höftum, því að það er eitthvað sem við verðum að gera, staðan sem hér er uppi er orðin afskaplega óeðlileg. Eins og búið var að benda á sjáum við koma upp alls kyns aðstæður sem menn hafa átt erfitt með að sjá fyrir. Við erum alltaf að eltast við, með auknu eftirliti, hækkun á sektum og öðru slíku, að reyna að loka fyrir öll þau göt sem geta komið upp, en um leið og við gerum það erum við auðvitað að ýta undir, getum við sagt, eftirlitsþjóðfélagið og kannski að glæpamannavæða hegðun sem ætti alla jafna að þykja eðlileg. Það er auðvitað mjög alvarlegt.

Ég vildi af þessu tilefni spyrja hæstv. ráðherra um eitt sem hefur lítið verið í umræðunni, en ég segi alla vega fyrir sjálfan mig að mér fannst það mjög óþægilegt og átti erfitt með að trúa því þegar ég heyrði um það fyrst. Það er að í Seðlabankanum sé fylgst með öllum erlendum færslum hjá Íslendingum. Ég verð að viðurkenna að mér finnast slíkar persónunjósnir, því það er auðvitað ekki hægt að kalla þetta neinum öðrum nöfnum, mjög óhugnanlegar og vildi heyra hvort hæstv. ráðherra hefði skoðað þetta mál — ég spurði fyrirrennara hans í starfi að þessu og fékk ekki mikil svör — og hvort hægt sé að finna einhvern annan flöt á eftirliti með gjaldeyrisútstreymi en svona nákvæma upplýsingaöflun um einstaklinga.

Fljótt á litið mundi maður ætla að hugsanlega væri hægt að gera þetta með því að kalla eftir einhvers konar leyfi þegar komið væri upp í ákveðið hámark, en að fylgst sé með öllum erlendum færslum hjá Íslendingum hljómar óþyrmilega líkt og í skáldsögu Georges Orwells, 1984. Það hefur verið bent á að eftir því sem við rafvæðum samfélag okkar meira og eftir því sem tölvutækninni fleygir fram og við notum rafræn samskipti meira bjóði það upp á ótrúlega mikla upplýsingasöfnun um einstaklinga, ekki síst ef menn greiða með kreditkortum, debetkortum og öðru slíku sem fólk notar alla jafna. Ég held að menn hafi af minna tilefni en þessu sest niður og reynt að finna flöt á því að viðhalda friðhelgi einkalífsins.

Fyrrverandi hv. þm. Jón Magnússon hefur sótt slíkt mál fyrir dómstólum, en af mörgum ástæðum er það erfitt. Það er erfitt að benda á beinan skaða af þessu, en það hlýtur að vera hlutverk okkar þingmanna að gæta þess að hið opinbera safni ekki saman persónulegum upplýsingum um einstaklinga að óþörfu, því það býður svo sannarlega upp á alls kyns misnotkun í því fámenna þjóðfélagi sem við búum í. Ég þarf ekki að fara yfir það, við erum rúmlega 300 þúsund og ætli mjög stór hluti þjóðarinnar sé ekki nokkuð þekktur, og þó að hann sé ekki þekktur, þá vinna náttúrlega við þetta eftirlit einhverjir einstaklingar sem þekkja einhverja og þetta er ekki gott, þetta býður upp á alls kyns misnotkun sem ég ætla ekki að leggja meira út af.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé afskaplega mikilvægt að við förum vel yfir þetta mál, en hættan við þá stöðu sem við erum í núna er að við erum alltaf að skoða einhver smámál. Hér erum við til dæmis að skoða hvort það sé alveg nauðsynlegt að hafa þetta þannig að heimila einungis að keypt sé eitt farartæki að andvirði 10 millj. kr. og hvort það sé alveg nauðsynlegt ef fram fara viðskipti fyrir hærri upphæðir, t.d. ef einhver tekur sig til og kaupir farartæki fyrir meira en 10 millj. kr., það eru sérstaklega stærri farartæki sem kosta meira, að Seðlabankinn staðfesti það. Við erum að diskútera hvort hóflegt sé að hækka sektir úr 20 milljónum í 65 milljónir og úr 75 milljónum í 250 milljónir. Það er auðvitað, svo maður segi það nú bara, alveg ömurlegt að standa í þessu. Það væri nær að ræða stóru myndina, hvernig við getum komið okkur út úr þessum höftum með sem ákveðnustum hætti. Ég tel að margar leiðir séu færar í því, en það skiptir hins vegar miklu máli að vanda til verka og vinna skipulega að hlutum. Mér hefur fundist skorta á að við sem þingheimur einsetjum okkur að ganga skipulega í það verk. Þetta er eitt af þeim stóru málum sem við verðum að leysa. Því fyrr, því betra.

Ég treysti því og veit að hv. efnahags- og viðskiptanefnd mun taka sér góðan tíma til að fara yfir þetta mál, en vildi þó, af því að hér er hæstv. ráðherra, spyrja hann út í þáttinn varðandi eftirlitið með öllum rafrænum færslum hjá einstaklingum, hvort hann hafi kynnt sér það og hvort eitthvað sé á leiðinni frá honum um þau mál. Ég ætla hæstv. ráðherra ekki annað en að vilja hafa eftirlit með einstaklingum fyrst og fremst þegar þess er þörf, en ekki að það sé almenn regla. Hér erum við að tala um almenna reglu, það er fylgst með hverri færslu hjá einstaklingum. Ég vona að ég fái einhverjar uppörvandi fréttir frá hæstv. ráðherra hvað það varðar.